Áhrif á ársreikning Breiðabliks

Áhrif á ársreikning Breiðabliks

Ég skilaði nýverið inn BSc ritgerðinni minni sem ber heitið Eignfærsla leikmannasamninga í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða. Viðfangsefni ritgerðarinnar er undanþága sem KSÍ fær frá reikningsskilareglum UEFA varðandi eignfærslu leikmannasamninga í ársreikningum. Á grundvelli undanþágunnar er svokallað stuðlakerfi notað sem leið til þess að verðmeta leikmenn í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða. Í ritgerðinni var leitast við að svara þremur rannsóknarspurningum:

  1. Hvaða áhrif hefur stuðlakerfið á ársreikninga íslenskra knattspyrnufélaga?
  2. Er stuðlakerfið í samræmi við lög og reglur?
  3. Er stuðlakerfið nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög?

Í stuttu máli þá hefur stuðlakerfið víðtæk áhrif á ársreikningana, en þó er fjárhæðirnar sjálfar óverulegar. Einnig var það niðurstaða mín að stuðlakerfið væri ekki í samræmi við ársreikningalögin né alþjóðlega reikningsskilastaðla. Loks tel ég að stuðlakerfið sé ekki nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög og að KSÍ þurfi að hætta með undanþáguna og aðlaga sig að reikningsskilareglum UEFA.

Næstu daga mun ég birta búta úr ritgerðinni.


Áhrif á ársreikning Breiðabliks árið 2024

Í ársreikningi Breiðabliks fyrir árið 2024 voru leikmannasamningar eignfærðir á 29.316.761 krónur. Af þeim voru 14.210.931 króna leikmannasamningar sem voru eignfærðir samkvæmt stuðlakerfinu. Með öðrum orðum þá voru 48,5% af virði leikmannasamninga Breiðabliks eignfærðir samkvæmt stuðlakerfinu í ársreikningnum. Hlutfall leikmannasamninga af heildareignum Breiðabliks er núna 6,8% en ef eignfærsla leikmannasamninga hefði verið færð samkvæmt reikningsskilareglum UEFA þá væri hlutfall leikmannasamninga af heildareignum 3,6% (Breiðablik, 2024).

Með því að nota reikningsskilareglur UEFA þá myndu afskriftir í rekstrarreikningnum hækka um 432.471 krónur. Breiðablik seldi einnig nokkra leikmenn á árinu. Stuðull þessara leikmanna hefur áhrif á tekjufærðan söluhagnað. Af þeim sökum þurfum við að bæta stuðlaverðinu þeirra við tekjuliðinn „félagsskiptatekjur“ en sá liður myndi hækka um 2.400.000 krónur samkvæmt reikningsskilareglum UEFA. Einn leikmaður var seldur með sölutapi en sú upphæð breytist þegar reikningsskilareglur UEFA eru notaðar og því lækkar gjaldaliðurinn „Annar rekstrarkostnaður“ um 290.174 krónur. Þetta allt saman leiðir til þess að afkoma ársins hækkar um 2.257.702 krónur og fer úr því að vera neikvæð upp á 104.928.222 krónur yfir í það að vera neikvæð upp á 102.670.520 krónur. Þessi hækkun á afkomunni nemur 2,2%.

Eignirnar myndu lækka um 14.210.931 krónur og fara úr 432.776.991 krónu niður í 418.566.060 krónur. Þessi lækkun á eignum nemur 3,3%. Leikmannasamningarnir lækka um hærri fjárhæð en hjá öðrum liðum, að Víkingi undanskildum, sem eru rannsökuð í þessari rannsókn. Það er vegna þess að Breiðablik gefur leikmönnum kvennaliðsins stuðla með sama hætti og karlaliðið, þrátt fyrir að kveðið sé á um það í reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga, að stuðullinn sé 1 fyrir allar konur.

Eigið fé myndi lækka um 14.210.931 krónur í heildina. Sú lækkun skiptist í jákvæða færslu á endurmatsreikningnum upp á 3.400.000 krónur, þar sem hann þurrkast út. Á móti þessu þarf að færa lækkun á óráðstöfuðu eigið fé upp 17.178.460 krónur svo eignir verði jafnt og eigið fé og skuldir. Eigið fé myndi því fara úr því að vera 232.253.695 krónur niður í 218.042.764 krónur. Þessi lækkun eigin fjár nemur 6,1%. Þá myndu eigið fé og skuldir fara úr því að vera 432.776.991 króna niður í 418.566.060 krónur en sú lækkun nemur 3,3%.

Breytingin á handbæru fé í sjóðstreyminu væri sú sama, en þó myndu hreyfingar eiga sér stað í sjóðstreyminu. Í rekstrarhreyfingunum myndi afkoman hækka um 2.257.702 krónur og afskriftirnar hækka um 432.471 krónur. Handbært fé til rekstrar færi þá úr því að vera 79.560.510 krónur í 76.870.336 krónur. Undir fjárfestingahreyfingunum myndi eiga sér stað breyting í liðnum félagsskipti leikmanna. Hann myndi lækka um 2.690.174 krónur til móts við hækkuninni sem átti sér stað í rekstrarhreyfingunum. Fjárfestingarhreyfingarnar færu þá úr því að vera 37.246.971 krónur í 39.937.145 krónur.

Samanburður á rekstrarreikningi Breiðabliks 2024 eftir KSÍ og UEFA aðferð.