Áhrif á ársreikning HK

Ég skilaði nýverið inn BSc ritgerðinni minni sem ber heitið Eignfærsla leikmannasamninga í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða. Viðfangsefni ritgerðarinnar er undanþága sem KSÍ fær frá reikningsskilareglum UEFA varðandi eignfærslu leikmannasamninga í ársreikningum. Á grundvelli undanþágunnar er svokallað stuðlakerfi notað sem leið til þess að verðmeta leikmenn í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða. Í ritgerðinni var leitast við að svara þremur rannsóknarspurningum:
- Hvaða áhrif hefur stuðlakerfið á ársreikninga íslenskra knattspyrnufélaga?
- Er stuðlakerfið í samræmi við lög og reglur?
- Er stuðlakerfið nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög?
Í stuttu máli þá hefur stuðlakerfið víðtæk áhrif á ársreikningana, en þó er fjárhæðirnar sjálfar óverulegar. Einnig var það niðurstaða mín að stuðlakerfið væri ekki í samræmi við ársreikningalögin né alþjóðlega reikningsskilastaðla. Loks tel ég að stuðlakerfið sé ekki nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög og að KSÍ þurfi að hætta með undanþáguna og aðlaga sig að reikningsskilareglum UEFA.
Næstu daga mun ég birta búta úr ritgerðinni.
Áhrif á ársreikning Handknattleiksfélag Kópavogs árið 2024
Í ársreikningi HK fyrir árið 2024 voru leikmannasamningar eignfærðir á 3.980.000 krónur. Af þeim voru 3.000.000 krónur leikmannasamningar sem voru eignfærðir samkvæmt stuðlakerfinu. Með öðrum orðum þá voru 75,4% af leikmannasamningum eignfærðir samkvæmt stuðlakerfinu í ársreikningi HK. Hlutfall leikmannasamninga af heildareignum HK er núna 3,8% en ef eignfærsla leikmannasamninga hefði verið færð samkvæmt reikningsskilareglum UEFA þá væri hlutfall leikmannasamninga af heildareignum 0,8% (Handknattleiksfélag Kópavogs, 2024).
Með því að nota reikningsskilareglur UEFA þá myndu afskriftir í rekstrarreikningnum hækka um 43.748 krónur og þar af leiðandi myndi afkoman fara úr því að vera 942.058 krónur niður í 898.310 krónur. Þessi lækkun á afkomunni nemur 4,6%.
Eignirnar myndu lækka um 3.143.748 krónur og fara úr 107.223.719 krónum niður í 104.079.971 krónur. Þessi lækkun á eignum nemur 2,9%
Eigið fé myndi lækka um 3.143.748 krónur í heildina. Lækkunin skiptist annars vegar í lækkun upp á 3.100.000 krónur á endurmatsreikningi leikmanna, sem myndi þurrkast út algjörlega. Hins vegar myndi óráðstafað eigið fé lækka um 43.748 krónur. Heilt yfir þá fer eigið fé úr því að vera 13.532.861 króna niður í 10.389.113 krónur. Þessi lækkun eigin fjár nemur 23,2%. Eigið fé og skuldir færu þá úr því að vera 107.223.719 krónur niður í 104.079.971 krónu en sú lækkun nemur 2,9%.
Breytingin á handbæru fé í sjóðstreyminu væri sú sama, en þó myndu hreyfingar eiga sér stað í sjóðstreyminu. Það er vegna þess að afkoman lækkar um 43.748 krónur en afskriftirnar hækka á sama tíma um 43.748 krónur og því væri hreint veltufé frá rekstri ennþá það sama. Aðrir liðir í sjóðstreyminu haggast ekki.
