Allt um Masters-mótið

Rory McIlroy bætti við langþráðri rós í hnappagatið sitt þann 13. apríl þegar hann sigraði Masters-mótið og komst þar með í sjö manna hóp sem hefur náð alslemmunni (e. grand slam).
Hvað er alslemman í golfi?
Alslemma er þegar kylfingur sigrar fjögur stærstu mótin sem eru Masters-mótið, PGA-meistaramótið, Opna bandaríska meistaramótið og Opna breska meistaramótið.
Sex kylfingar hafa náð þessum árangri en það eru þeir Gene Sarazan, Ben Hogan, Gary Player, Jack Nicklaus, Tiger Woods og nú Rory McIlroy.
Það var alls konar fréttaflutningur í kringum mótið sem fjallaði um hluti sem gerðust utan vallar, förum yfir þær fréttir.
Verðlaunaféð
Verðlaunaféð fyrir sigurvegarann í ár voru 4,2 milljónir dollara sem er 600 þúsund dollurum meira en það var í fyrra, þegar Scottie Scheffler fékk 3,6 milljónir dollara fyrir sinn sigur. Verðlaunafé Rory McIlroy samsvarar 534.198.000 kr. (miðað við gengið daginn eftir mótið) sem eru rúmlega 48-föld meðalárslaun á Íslandi (tölur frá 2023).
Heildarverðlaunafé mótsins í ár var 21 milljón dollara en sú upphæð hefur rúmlega tvöfaldast frá árinu 2015 þegar það var 10 milljónir dollara og sigurvegarinn fékk 1,8 milljónir dollara.
Til samanburðar má einnig nefna að Horton Smith, sigurvegari fyrsta Masters-mótsins árið 1934, fékk $1.500 sem væri $36.070 núvirt.



Áhorfið
Áhorfið á sunnudeginum í Bandaríkjunum var 12,7 milljónir manns hjá CBS sem er 33% hærra en áhorfið í fyrra. Áhorf á Masters-mótinu hefur ekki verið svona mikið frá árinu 2018 hjá CBS. Í Bretlandi var slegið met hjá Sky Sports á sunnudeginum þegar 7,5 milljónir manns horfðu á útsendingar Sky Sports þann dag. Fleiri íþróttaviðburðir áttu sér stað þann dag en Masters-mótið átti klárlega stóran þátt í þessum tölum hjá Sky Sports.





Miðar
Miðarnir á Masters-mótið eru mjög eftirsóttir. Dagspassinn er á 140 dollara og helgarpassinn kostar 450 dollara. Ef þú vilt hins vegar fara í aðeins meiri lúxus þá er hægt að kaupa miða í Map & Flag svæðið sem er í stuttu máli bara VIP svæði. Sá miði er hins vegar ekki á viðráðanlegu verði nema þú sért mjög efnaður, stykkið kostar heilar 17 þúsund dollara. Fyrir þá allra ríkustu er hins vegar hægt að kaupa miða í Berckmans Place, sem er VIP svæði úr efstu hillu, miðaverðið er ekki opinberað en orðið á götunni segir að miðinn hafi kostað 25 þúsund dollara í ár.
Þá var Augusta National golfklúbburinn extra harður í garð miðaendursölu í ár. Golfklúbburinn er sá eini sem selur miða og hefur lagt bann við miðaendursölum. En golfklúbburinn hefur vanalega snúið blinda auganu að miðaendursölum. Í ár varð hins vegar breyting á því og margir miðar voru ógildaðir. Önnur stórmót í golfheiminum leggja ekki bann við endursölum. Sögur segja að þessi háttsemi Augusta National golfklúbbsins sé einn liður í breytingum sem munu eiga sér stað á miðasölunni á næsta ári.

https://x.com/FOS/status/1777705992089702644


Símabannið
Á Masters-mótinu ríkir algjört símabann. Ef áhorfendur þurfa að hringja símtal geta þeir gert það í tíkallasímum. Þessar reglur komu sér hins vegar illa fyrir suma áhorfendur sem starfa í fjármálageiranum. Á miðvikudeginum, þegar æfingarumferðirnar stóðu yfir, tilkynnti Donald Trump 90 daga hlé á fyrirhuguðum tollahækkunum og í kjölfarið ruku hlutabréf upp í verði. Á Augusta National vellinum voru ýmsir verðbréfamiðlarar, starfsmenn í eignastýringum, fjárfestar og fleiri sem höfðu ekki hugmynd um að þetta hefði skeð.
Þotuliðið

Í kringum mótið er gífurlegur fjöldi einkaflugvéla sem fljúga til bæjarins Augusta í Georgíu-fylki. Í heildina voru rúmlega 2.100 lendingar og brottfarir sem áttu sér stað á flugvellinum yfir vikuna sem Masters-mótið fór fram. Það eru u.þ.b. 300 á dag, en í hefðbundnari viku eiga sér stað ca. 60 lendingar og brottfarir. Rúmlega fimmföld aukning sem á sér stað út af þessu móti!

Veitingar

Einn hlutur sem Masters-mótið er þekkt fyrir eru verðin á veitingunum sem standa gestum til boða. Bjórinn kostar sex dollara, ca. 770 kr., ég held að þú finnur ekki þannig verð á happy hour hér á Íslandi.

Garðdvergar og bangsar
Masters-mótið er gífurlega vinsælt golfmót. Því er skiljanlegt að áhorfendur vilji eiga einhverja minjagripi sem þeir geta sett upp í hillu. Í sjoppunni sem er á svæðinu er meðal annars hægt að kaupa forláta garðdverga. Eftirspurnin er það mikil að gestir mega einungis kaupa eitt stykki. Verðið á þeim er 49,95 dollarar en það er rosalegur endursölumarkaður til staðar fyrir þessa garðdverga.
Það er einnig hægt kaupa bangsa. Hann kostar hins vegar skildinginn. Kaupendur þurfa að reiða fram 250 dollara fyrir stykkið og þeir koma í mjög takmörkuðu magni, einungis 500 stykki eru framleidd. Bangsinn er raunar það eftirsóttur að þú getur keypt hann á eBay fyrir töluvert hærra verð.

Frægðarhallarmeðlimur MLB-deildarinnar gerist ljósmyndari

Mynd sem náðist af Rory McIlroy eftir að hann vann Masters-mótið vakti athygli fyrir áhugaverðar sakir. Myndin sjálf er auðvitað afskaplega góð en ljósmyndarinn sem tók hana er ekki hin týpíski ljósmyndari. Maðurinn á bakvið myndavélina er maður að nafni Ken Griffey Jr. en hann er fyrrum leikmaður í MLB-deildinni. Griffey var hins vegar enginn meðalmaður í hafnabolta, hann var frekar góður leikmaður. Skoðum CV'ið hans.
Griffey var valinn MVP árið 1997, er í frægðarhöll MLB-deildarinnar, er í 7. sæti yfir flest heimahlaup (e. home-run) í sögu MLB-deildarinnar, tók 13x þátt í stjörnuleiknum, er í frægðarhöll Seattle Mariners og Cincinnati Reds, treyjan hans er uppi í rjáfri hjá Mariners, var valinn í 30 manna lið 20. aldarinnar í MLB-deildinni. Ágætis CV!

Griffey fékk áhuga á ljósmyndun þegar hann var 35 ára. Eftir að ferlinum lauk hefur hann meðal annars eytt tímanum sínum meira í þetta áhugamál og hefur myndað á MLB, NFL og MLS leikjum svo dæmu séu tekin.
Ég þekki lítið sem ekkert til hafnabolta. Ég spurði því ChatGPT hvaða leikmaður væri hliðstæða Ken Griffey Jr. í knattspyrnu til þess að fá eitthvað skiljanlegt samhengi. ChatGPT sagði að það væri Kaká. Verður áhugavert að sjá hvort Kaká muni ná geggjaðri mynd af sigurvegara Wimbledon-mótsins í sumar!

Húsnæði á svæðinu
Business insider tók viðtal við fjölskyldu sem býr í 12 mínútna fjarlægð frá Augusta National golfvellinum. Hvert ár leigja þau út húsið sitt þegar Masters-mótið stendur yfir. Leiguverðið dugir fyrir afborgunum af húsnæðisláninu í heilt ár, ekki amalegt. Þetta minnir mann mikið á það þegar Vestmannaeyingar leigja húsnæði sín yfir verslunarmannahelgina.
Augusta National golfklúbburinn hefur eytt gífurlegum fjármunum í það að kaupa upp lóðir í kringum golfvöllinn. Samkvæmt grein frá The Wall Street Journal árið 2019 þá hefur golfklúbburinn eytt 200 milljón dollurum í jarðakaup. Það eru hins vegar hjón sem hafa síendurtekið neitað að selja lóðina sína og einbýlishúsið sem stendur á því. Herman og Elizabeth Thacker hafa margoft fengið rausnarleg kauptilboð í lóðina frá golfklúbbnum en alltaf neitað. Herman sagði eitt sinn í viðtali að peningar væru ekki allt. Gamli skólinn er með standard því verður ekki neitað.





https://www.wsj.com/articles/augusta-nationals-makes-a-200-million-land-grab-11554897600