Margt og mikið sem gerðist í aprílmánuði, stiklum á stóru á öllu því helsta.
Skráðu þig á póstlistann!
Fáðu tilkynningu um leið og það kemur ný grein.
Kostar ekkert og alltaf hægt að afskrá sig.
Luka Dončić snýr aftur til Dallas
Dallas Mavericks tók á móti LA Lakers í American Airlines Center höllinni í Dallas þann 9. apríl. ESPN sjónvarpsstöðin tilkynnti að rúmlega 2,3 milljónir manns hefðu horft á útsendinguna. Þetta var hins vegar ekki fyrsta viðureign liðanna eftir umdeilda skiptidílinn á Luka Dončić og Anthony Davis. Liðin öttu kappi í Los Angeles 25. febrúar, þremur vikum eftir skiptidílinn. Sá leikur fékk rúmlega 2,5 milljónir í áhorf.
La Gazetta dello Sport greindi frá því að Aston Martin formúluliðið væri tilbúið að leggja fram samningstilboð á borðið hjá Max Verstappen. Samningstilboðið ku hljóða upp á 264 milljónir evra fyrir þriggja ára samning. Það eru hátt í 39 milljarðar króna. Peningarnir koma frá opinbera fjárfestingasjóð Sádí-Arabíu sem á nú þegar 20% hlut í Aston Martin formúluliðinu en hefur hug á því að eignast allt liðið.
Alexander Ovechkin skoraði 895. markið sitt í NHL þann 6. apríl og varð þar með markahæsti leikmaður í sögu NHL-deildarinnar, met sem Wayne Gretzky átti á undan honum. Ovechkin er leikmaður Washington Capitals en hann skoraði markið í útileik gegn New York Islanders. Íshokkýliðið úr stóra eplinu sá sér leik á borði og bauð áhorfendum upp á þann möguleika að fá útprentaðan aðgangsmiða fyrir þá allra hörðustu sem vildu minnast stundarinnar með einhverjum hætti. En sá hængur er á að það myndi kosta áhorfandann 45 dollara, rúmlega 5.800 krónur fyrir eitthvað bréfsnifsi! Miðaverð á leikinn rauk líka upp í aðdraganda leiksins. Ódýrustu miðarnir kostuðu nokkur hundruð dollara.
Tímabilið í MLB-deildinni hófst undir lok marsmánuðar og öll umræðan snýst um tundurskeytakylfuna svokölluðu (e. torpedo bat). Kjarnyrt útskýring á kylfunni sjálfri birtist í Viðskiptablaðinu og ég vísa einfaldlega í þá frétt hvað kylfuna sjálfa varðar. Hins vegar hefur áhuginn á kylfunni verið svo mikill meðal almennings að helstu kylfuframleiðendurnir eru byrjaðir að selja kylfuna til neytenda.
Fækkun í M&A dílum alls staðar nema í íþróttaheiminum
Á fyrsta ársfjórðungi 2025 voru rúmlega 7.551 M&A dílar tilkynntir á heimsvísu. Áratuginn á undan hafa alltaf verið að minnsta kosti tíu þúsund dílar tilkynntir á fyrsta ársfjórðungi. Það hefur hins vegar ekkert lát verið á M&A dílum í íþróttaheiminum. Boston Celtics var til dæmis selt á 6,1 milljarða Bandaríkjadala og síðan keypti framtakssjóðurinn Sixth Street 10% hlut í San Francisco Giants. Einnig hafa verið alls konar viðskipti með fyrirtæki í bransanum.
Hlaðvarpið The Price of Football ræddi aðeins um möguleg áhrif tollastríðs Trump á íþróttaheiminn. Umfjöllunin er frá 11:35-18:35.
Það voru nokkrir hlutir nefndir í hlaðvarpinu og greinunum. Gengissveiflur á bandaríska dollarnum gæti til dæmis haft áhrif á afborgun lána hjá liðum sem eru með lán í dollurum. Tollarnir gætu haft áhrif á ákvörðun fyrirtækja að auglýsa á búningum félagsliða eða í sjónvarpsútsendingum. Ef almennt verðlag hækkar gæti það leitt til þess að fleiri horfa á íþróttir í gegnum ólögleg streymi. Þá myndi sjónvarpsáskrifendum fækka, sjónvarpsstöðvarnar bjóða minna í sjónvarpsréttindi og félögin fá þar af leiðandi minni pening fyrir sjónvarpsréttindin. Þetta getur haft víðtæk áhrif.
49. þing UEFA fór fram í Belgrade í byrjun apríl. Í kjölfarið birti UEFA fjárhagsskýrslu og ársskýrslu fyrir tímabilið 23/24. Í fjárhagsskýrslunni má meðal annars finna upplýsingar um Evróputekjur Breiðabliks.
Telegraph fjallaði um lukkukrakka-bransann á Englandi. Ef þú vilt sjá krakkann þinn leiða einhverja stjörnu í úrvalsdeildinni út á völlinn þá gætur þú þurft að borga fúlgur fjár. Sum félög rukka ekkert, hjá öðrum þarftu að vera meðlimur sem kostar nokkra þúsund kalla, hjá sumum kostar það nokkra tugi þúsunda króna og hjá Nottingham Forest kostar það á bilinu 200-300 þúsund krónur. Þegar ég var lítill polli þá leiddi ég leikmann FC Torpedo Zhodino út á Laugardalsvöllinn þegar mínir menn í Fylki mættu þeim í undankeppni Evrópudeildarinnar. Ég hugsa að foreldrar mínir hefðu ekki tímt því að borga 200 þúsund krónur fyrir það.
Í liðnum mánuði birti FIFA tvær skýrslur. Annars vegar um félagshagfræðileg áhrif HM félagsliða árið 2025. Hins vegar um félagshagfræðileg áhrif HM 2026.
Það bárust fréttir af því að miðjumaðurinn ólseigi hefði keypt hlut í Swansea City í liðnum mánuði. Það hafa engar upplýsingar komið fram um verðmiðann né stærð hlutarins sem Modrić keypti.
Félögin í ensku úrvalsdeildinni eyddu samtals 409,1 milljónum punda í umboðslaun í janúarglugganum og síðasta sumarglugga. Það er í kringum 70,1 milljarðar króna sem væri ígildi þess að kaupa 17,5 milljónir nammigrísa frá Bónus. Ef þessum grísum væri svo útdeilt á alla íbúa Íslands þá myndi hver og einn fá ca. 45 nammigrísi.
Undir lok mánaðarins var tilkynnt að tveir nýir aðilar væru komnir inn í eigendahóp Everton. Annar þeirra er Christopher Sarofim sem er 62 ára gamall milljarðamæringur frá Bandaríkjunum. Hinn er hins vegar þekktara nafn. Jason Kidd, þjálfari Dallas Mavericks og fyrrverandi leikmaður í NBA-deildinni, er einnig kominn inn í eigendahópinn.
Það virðist allt stefna í það að Leeds muni stækka heimavöllinn sinn, Elland Road, innan tíðar. Nú á dögunum birti félagið fyrirhugaðar teikningar af stækkuninni. Völlurinn hefur í dag pláss fyrir 37.645 áhorfendur en áætlað er að fjölga því upp í 53 þúsund.
Washington Commanders mögulega að fara byggja nýjan völl
NFL-liðið Washington Commanders og Muriel Bowers, borgarstjóri í Washington D.C., tilkynntu um uppbyggingu á nýjum heimavelli. Liðið hefur spilað á Northwest Stadium frá árinu 1997 en sá völlur er staðsettur í Maryland, rétt fyrir utan Washington D.C. Þessi nýi heimavöllur á að rísa þar sem RFK völlurinn stóð forðum daga, en það var heimavöllur Commanders frá árinu 1961-1996. Áætlað er að völlurinn muni kosta 3,7 milljarða dollara og rúmlega 1,1 milljarðar dollara á að koma úr vösum skattgreiðenda í Washington D.C., borgarstjórnin á þó ennþá eftir að samþykkja það.