Ársreikningar íslenskra knattspyrnuliða eru ekki í samræmi við lög og reglur

Ársreikningar íslenskra knattspyrnuliða eru ekki í samræmi við lög og reglur

Ég skilaði nýverið inn BSc ritgerðinni minni sem ber heitið Eignfærsla leikmannasamninga í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða. Viðfangsefni ritgerðarinnar er undanþága sem KSÍ fær frá reikningsskilareglum UEFA varðandi eignfærslu leikmannasamninga í ársreikningum. Á grundvelli undanþágunnar er svokallað stuðlakerfi notað sem leið til þess að verðmeta leikmenn í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða.

Næstu daga mun ég birta búta úr ritgerðinni.


Inngangur

Knattspyrnuleikmenn eru mikilvægasta eign knattspyrnufélaga þar sem þeir eru í raun undirstaða þess að félag getur verið til. Það eru auðvitað margir þættir sem hafa áhrif á það hvort knattspyrnulið sigrar knattspyrnuleik eða ekki. Þetta eru þættir eins og þjálfarar, aðstaða, umgjörð, skipulag og skrifstofufólk svo einhver dæmi séu nefnd. En það eru leikmennirnir sem búa til tekjurnar. Það eru leikmennirnir sem búa til aðdáendur. Það eru leikmennirnir sem skora mörkin. Það eru leikmennirnir sem vinna leikina. Leikmennirnir eru einfaldlega lífæð knattspyrnufélaga og því er réttast að gera grein fyrir þeim með einhverjum hætti í ársreikningum knattspyrnufélaga.

Knattspyrnusamband Íslands (hér eftir „KSÍ) er aðili að heimsálfusambandinu Union des Associations Européennes de Football (hér eftir „UEFA). UEFA heldur úti þremur liðakeppnum karlamegin, Meistaradeildina, Evrópudeildina og Sambandsdeildina. Kvennamegin er einungis ein liðakeppni að svo stöddu, Meistaradeildin, en frá og með tímabilinu 2025/26 bætist ný keppni við sem mun heita Evrópubikarinn. Tvö íslensk karlalið hafa komist í Sambandsdeildina, Breiðablik og Víkingur, og eitt íslenskt kvennalið hefur komist í Meistaradeildina, Breiðablik.

Til þess að félagslið fái keppnisleyfi í liðakeppni UEFA þarf að uppfylla ýmsar kröfur sem er meðal annars að finna í UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations (hér eftir „leyfisreglugerð UEFA“). KSÍ, og þar af leiðandi aðildarfélög þess, fylgja þessari reglugerð statt og stöðugt. Hún er raunar fyrirmyndin að leyfisreglugerð KSÍ. Það er hins vegar einn viðauki í UEFA leyfisreglugerðinni sem KSÍ fær undanþágu frá en það er G.3 viðaukinn. Sá viðauki snýr að eignfærslu leikmannasamninga í ársreikningum knattspyrnuliða. UEFA veitir KSÍ undanþáguna með þremur skilyrðum. Fyrsta skilyrðið kveður á um að ekkert félag skuli heyra undir stöðugleikakröfur 80. gr. leyfisreglugerðar UEFA en í því lagaákvæði er tekið fram að öll knattspyrnulið með starfsmannakostnað undir fimm milljónum evra þurfi ekki að uppfylla þær kröfur. Annað skilyrðið snýr að flokkun endurmats á virði leikmannasamninga. Þriðja skilyrðið snýr að útreikningum á eiginfjárstöðu samkvæmt 70. gr. leyfisreglugerðar UEFA.

Á grundvelli undanþágunnar sem KSÍ fær, eignfæra íslensk knattspyrnulið leikmannasamninga með svokölluðu stuðlakerfi. Það gerir það að verkum að allir leikmenn eru eignfærðir í ársreikningum íslenskra félaga en ekki bara þeir leikmenn sem eru keyptir, líkt og reikningsskilareglur UEFA kveða á um.

Tilgangur ritgerðarinnar er að kanna hvaða áhrif reikningsskilareglur KSÍ hafa á eignfærslu leikmannasamninga hjá íslenskum knattspyrnuliðum. Fyrst verður fjallað almennt um óefnislegar eignir. Því næst verður farið vítt og breitt um völlinn og varpað ljósi á eignfærslu leikmannasamninga hjá knattspyrnuliðum í sögulegu samhengi. Allt frá fyrsta íþróttaliðinu sem eignfærði leikmannasamninga yfir í þá atburði sem höfðu áhrif á það hvernig reikningsskilareglurnar hafa þróast í knattspyrnuheiminum í gegnum aldanna rás. Þá verður farið yfir þær reikningsskilareglur sem gilda í dag hjá UEFA og þá undanþágu sem KSÍ fær frá reikningsskilareglum UEFA. Svo verður kafað djúpt ofan í stuðlakerfi KSÍ og þau áhrif sem það hefur á ársreikninga íslenskra knattspyrnuliða. Að lokum verður rætt hvort stuðlakerfið þjóni sínum tilgangi eða hvort það sé orðið tímabært að kasta undanþágunni út um gluggann og fylgja reikningsskilareglum UEFA.

Í rannsókninni verður leitast við að svara eftirfarandi rannsóknarspurningum:

1. Hvaða áhrif hefur stuðlakerfið á ársreikninga íslenskra knattspyrnufélaga?

2. Er stuðlakerfið í samræmi við lög og reglur?

3. Er stuðlakerfið nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög?



Samfélagsmiðlar

facebook.com/utanvallar

linkedin.com/company/utanvallar

instagram.com/utanvallar

tiktok.com/@utanvallar

x.com/utanvallar