Ársreikningur Breiðabliks 2024

Eftir sögulegan ársreikning árið 2023 biðu margir (allavega ég) spenntir eftir því að sjá ársreikninginn fyrir árið 2024. Rúllum í gegnum hann!
Tekjur

Heildartekjur Breiðabliks lækkuðu á milli ára. Það ætti þó ekki að koma neinum á óvart þar sem Evrópuævintýri karlaliðsins í Sambandsdeildinni átti risastóran þátt í veltu Breiðabliks árið 2023. Í ársreikningi Breiðabliks eru tekjur sundurliðaðar í fimm tekjuliði: Framlög og styrkir, tekjur af mótum, æfingagjöld, félagsskiptatekjur og aðrar tekjur.
Framlög og styrkir

Guðmundur Eggert Óskarsson ánafnaði knattspyrnudeild Breiðabliks 200 milljónum kr. árið 2022 sem er ástæðan fyrir því að framlög og styrkir hækkuðu svona mikið það ár.

Tekjur af mótum

Þessi tekjuliður er ekki sundurliðaður neitt frekar þannig hér skulum við leggjast í smá rannsóknarvinnu. Takið hins vegar þessum tölum með smá fyrirvara. Það er óljóst hvenær nokkrar greiðsludagsetningar eru hjá UEFA sem getur skekkt útreikningana mína út af genginu.
Árið 2021 spilaði kvennaliðið í Meistaradeild Evrópu og fékk 72.408.000 kr. greiddar á því ári fyrir þátttökuna. Karlaliðið datt út í þriðju umferð í undankeppni Sambandsdeildarinnar og fékk 135.324.857 kr.
Samtals 207.732.857 kr. fyrir Evrópukeppni og restin, þ.e. 70.873.629 kr., væntanlega peningur frá deildarkeppni, bikarkeppni og öðru.
Árið 2022 tapaði karlaliðið aftur í þriðju umferð í undankeppni Sambandsdeildarinnar og fékk 136,829,963 kr. Kvennaliðið fékk fleiri greiðslur fyrir þátttökuna í Meistaradeild Evrópu árið á undan, samtals 17.098.248 kr. til viðbótar. Þá duttu þær út í fyrstu umferð í undankeppni Meistaradeildar Evrópu og fengu samtals 9.863.000 kr. greitt fyrir það
Samtals 163.791.211 kr. fyrir Evrópukeppni og restin, þ.e. 95.357.548 kr., væntanlega peningur frá deildarkeppni, bikarkeppni og öðru.
Árið 2023 fékk karlaliðið greiddar 496.675.687 kr. fyrir þátttöku sína í Sambandsdeildinni. Kvennaliðið tók ekki þátt í Evrópukeppni þetta árið.
Samtals 496.675.687 kr. fyrir Evrópukeppni og restin, þ.e. 143.348.761 kr., væntanlega peningur frá deildarkeppni, bikarkeppni og öðru.
Árið 2024 fékk karlaliðið nokkrar greiðslur til viðbótar fyrir þátttökuna í Sambandsdeildinni, samtals 31.755.010 kr. og 105.490.000 kr. eftir að hafa dottið út annarri umferð í undankeppni Sambandsdeildarinnar. Kvennaliðið datt út í fyrstu umferð í undankeppni Meistaradeildar Evrópu og fékk greitt 6.084.000 kr.
Samtals 143.329.010 kr. fyrir Evrópukeppni og restin væntanlega peningur frá deildarkeppni, bikarkeppni og öðru.
Mig grunar að restin af upphæðinni séu hlutir eins og miðasala, útsendingarréttur, veitingasala og fleira í þeim dúr.
Aðrar tekjur

Það er engin sundurliðun í skýringum fyrir þennan tekjulið, sem er miður, þannig hér er bara hægt að fara í einhverjar getgátur. Hérna gæti verið um að ræða fjáraflanir, tekjur af skemmtunum eins og herra- og konukvöldum og fleira. Mögulega er um að ræða veitingasölu, miðasölu, útsendingarrétt en ég held að það sé frekar flokkað undir tekjuliðinn „Tekjur af mótum“
Félagsskiptatekjur

Breiðablik hefur fengið samtals 593.338.114 kr. í félagsskiptatekjur frá árinu 2020. Ekkert lið hefur grætt meira en Breiðablik á félagsskiptum síðustu árin.
Gjöldin

Heildargjöld Breiðabliks hafa næstum því tvöfaldast frá árinu 2020. Þá er CAGR vöxturinn 18,6%. Í ársreikningi Breiðabliks skiptast í gjöldin í sex liði: Þjálfun, leikmenn og yfirstjórn; búningar og íþróttaáhöld; þátttaka í mótum; skrifstofu- og stjórnunarkostnaður; annar rekstrarkostnaður og afskriftir.
Þjálfun, leikmenn og yfirstjórn

Þessi liður hefur vaxið um 85% frá árinu 2020. Það er meira á bakvið þennan gjaldalið en bara laun svo það er ekki alveg tækt að reikna launahlutfall hérna.
Búningar og íþróttaáhöld

Vanalega myndi þessi gjaldaliður ekki vera neitt áhugaverður en það varð einhver rosaleg sprenging 2023 og 2024 samanborið við fyrri ár. Er þetta eitthvað sem tengist Sambandsdeildinni eða var verið að kaupa rándýrar keilur?
Þátttaka í mótum

Ferðakostnaður er eflaust stór hluti af þessum útgjöldum, skoðum þá ferðalögin í Evrópukeppnum á þessum árum.
2020 - Karlaliðið spilaði einn leik í Noregi.
2021 - Karlaliðið spilaði í Austurríki, Lúxemborg og Skotlandi. Kvennaliðið spilaði í Frakklandi, Króatíu, Litháen, Spáni og Úkraínu.
2022 - Karlaliðið spilaði í Andorru, Svartfjallalandi og Tyrklandi. Kvennaliðið spilaði í Noregi.
2023 - Karlaliðið spilaði í Belgíu, Bosníu, Danmörku, Írlandi, Ísrael, Norður-Makedóníu og Póllandi.
2024 - Karlaliðið spilaði í Kósóvó og Norður-Makedóníu.
Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður

Lítið að frétta í þessum gjaldalið. Eðlilegur vöxtur yfir tímabilið og lítið hægt að túlka eða geta sér til um hér.
Annar rekstrarkostnaður

Þessi liður er ekki sundurliðaður í ársreikningnum. En það gæti verið að hér sé um að ræða kostnað við dómgæslu, umboðslaun, kostnað við viðburðahald og fleira.
Afskriftir

Afskriftirnar hafa hækkað mikið undanfarin ár sem má rekja til þess að kaupverð leikmanna hefur hækkað og þar af leiðandi hækka afskriftir leikmannasamninga.
Ég hef hins vegar ýmislegt við fyrirkomulag afskrifta á leikmannasamningum íslenskra knattspyrnuliða að athuga. Um þessar mundir er ég að leggja lokahönd á BSc ritgerðina mína þar sem ég fer meðal annars yfir það, meira um það síðar...
Afkoma

Ef við tökum leikmannasölur og fjármagnsliði út fyrir sviga þá er uppsöfnuð rekstrarafkoma Breiðabliks á tímabilinu neikvæð upp á 386.363.660 kr. Heildarafkoman er hins vegar jákvæð upp 248.566.177 kr.
En af hverju varð rúmlega 209 milljón kr. niðursveifla í rekstrinum á milli 2024 og 2023? Framlög og styrkir lækkuðu á milli ára en slíkt getur komið fyrir og er enginn heimsendir. Tekjur af mótum lækkuðu auðvitað hressilega en við því mátti búast. Síðan hækkuðu félagsskiptatekjur og aðrar tekjur á milli ára. Allt á tekjuhliðinni er nokkuð eðlilegt.
Gjaldaliðurinn „Þjálfun, leikmenn og yfirstjórn“ lækkaði um rúmlega 3% á milli ára, þar liggur hundurinn grafinn. Árið 2023 hækkaði þessi gjaldaliður um 86,5 milljónir kr. en það ár fengu leikmenn karlaliðs Breiðabliks einhverjar bónusgreiðslur fyrir það að komast inn í Sambandsdeildina sem hefur, ásamt öðrum þáttum, híft upp þennan gjaldalið. En af einhverjum ástæðum lækkaði þessi gjaldaliður lítið árið 2024. Afskriftir hækkuðu um rúmlega 5 milljónir kr. á milli ára en það er ekki stóra höggið í þessu öllu saman. Aðrir gjaldaliðir eru með nokkuð eðlilega lækkun.

Eignir

Eignir Breiðabliks hafa hækkað hressilega frá árinu 2020 en það má rekja til arfsins og árangursins í Sambandsdeildinni sem hefur fært félaginu mikla fjármuni.
Leikmenn

Verðmæti leikmannasamninga náði hámarki 2022 hjá Breiðabliki en ég myndi hins vegar ekki taka mikið mark á þessum upplýsingum. Þetta er einmitt aðalviðfangsefni BSc ritgerðarinnar minnar, meira um það síðar...
Handbært fé

Breiðablik var með alveg hreint ótrúlega mikið af handbæru fé eftir Evrópuævintýrið 2023. 300 milljónir kr. hjá íslensku knattspyrnuliði er galin upphæð. Handbært fé lækkaði hins vegar um ca. 117 milljónir kr. á síðasta ári, fer betur yfir það í sjóðstreyminu neðar í þessari grein.
Verðbréfaeign

Í kjölfar arfsins sem Breiðablik fékk frá Guðmundi árið 2022 var settur upp styrktarsjóður. Meirihluti arfsins fór í kaup á verðbréfum og eru öll verðbréf í eigu Breiðabliks tengd styrktarsjóðnum.
Styrktarsjóður GÓ

Meirihluti arfsins fór í kaup á verðbréfum til þess að ávaxta peninginn en hluti arfsins er geymdur á bankabók.

Árið 2023 seldi Breiðablik svo verðbréf fyrir 80 milljónir kr. og var hlutfall verðbréfaeignar og handbærs fjár í styrktarsjóðnum orðið nánast jafnt.


Árið 2024 seldi Breiðablik ekkert af verðbréfunum en eyddi 30 milljónum kr. í einhver vel valin verkefni.

Skuldir

Skuldir voru töluvert hærri 2023 og 2024 samanborið við fyrri ár. Það má eflaust rekja eitthvað af þessu til árangursins í Sambandsdeildinni en þetta er svo sem ekkert skýrt frekar í ársreikningnum og því ómögulegt að vita.


Sjóðstreymi

Stærstu breyturnar í sjóðstreyminu 2024:
Afkoma - Eins og fjallað var um ofar í greininni þá tapaði Breiðablik rúmlega 104 milljónum kr. árið 2024.
Viðskiptakröfur - Breiðablik fékk 31.755.010 kr. greiddar árið 2024 fyrir þátttökuna í Sambandsdeildinni árið 2023. Hér gæti verið að a.m.k. hluti þess hafi verið skráður sem viðskiptakröfur í árslok 2023 og að það sé þá ein ástæða fyrir því að viðskiptakröfur lækkuðu um 49 milljónir kr. árið 2024.
Skammtímaskuldir - Viðskiptaskuldir lækkuðu um næstum því helming á milli ára. Þær fóru úr því að vera 168 milljónir kr. niður í 86 milljónir kr. Fyrirframinnheimtar tekjur hækkuðu hins vegar um rúmlega 35 milljónir kr.
Ársreikningar
Ársreikningur knattspyrnudeildar Breiðabliks 2024 https://issuu.com/breidablik.is/docs/_rssk_rsla_knattspyrnudeildar_brei_abliks_2024