Ársreikningur Víkings 2024

Ársreikningur Víkings 2024

Hoppaðu upp í DeLorean eða komdu þér fyrir í heitum potti og farðu fimm ár aftur í tímann til sumarsins 2020. Gefðu þig á tal við stuðningsmann Víkings og segðu honum að á næstu fimm árum muni karlaliðið verða Íslandsmeistari tvisvar sinnum, bikarmeistari þrisvar sinnum, spila hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn og tapa, komast áfram úr deildarkeppni Sambandsdeildarinnar og tapa í umspili gegn Panathinaikos, og Gylfi Sig mun spila fyrir félagið. Og kvennaliðið sem spilar í næstefstu deild? Tjaaaaa þær munu verða bikarmeistarar og vinna Lengjudeildina sumarið 2023 og enda síðan í 3. sæti í efstu deild sumarið eftir það.

Skoðum ársreikning Víkings fyrir árið 2024 og þróunina sem hefur orðið á fjármálum knattspyrnudeildarinnar frá árinu 2020.


Tekjurnar

Heildartekjur knattspyrnudeildar Víkings 2020-2024.

Eins og allir vita þá fékk Víkingur böns of monní á síðasta ári fyrir árangurinn í Sambandsdeildinni. Samanlögð velta Víkings frá árinu 2020 er 2.769.040.900 kr. en rúmlega 45% af þeim tekjum komu einmitt á síðasta ári.

Sundurliðaðar tekjur

Í ársreikningi Víkings eru tekjur sundurliðaðar í sex tekjuliði: miðasölu, auglýsingar og samstarfsaðilar, útsendingarréttur, söluvarningur og veitingar, aðrar rekstrartekjur, og leikmannasölur. Skoðum hvern tekjulið fyrir sig til þess að sjá betur hvernig þróun tekna hefur verið.

Miðasala

Tekjur af miðasölu í rekstrarreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2020-2024.

Tekjur af miðasölu hafa fjórfaldast frá árinu 2020, en við skulum þó hafa í huga að samkomutakmarkanir höfðu áhrif á þennan tekjulið 2020 og eitthvað árið 2021. CAGR vöxturinn frá 2020 er 50%.

Auglýsingar og samstarfsaðilar

Tekjur af auglýsingum og samstarfsaðilum í rekstrarreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2020-2024.

Tekjuliðurinn Auglýsingar og samstarfsaðilar hefur vaxið um 76% á þessu tímabili með CAGR vöxt upp á 15,3%.

Útsendingarréttur

Tekjur af útsendingarrétti í rekstrarreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2020-2024.

Tekjur af útsendingarréttindum hafa tvöfaldast á þessu tímabili með CAGR vöxt upp á 20%. Það voru gerðir nýir sjónvarpssamningar þegar efsta deildin varð að Bestu deildinni. Karlaliðin fá núna rúmlega 20 milljónir kr. og kvennaliðin 2,5 milljónir kr.

Karlalið í efstu deild í knattspyrnu fá 20 milljónir í réttindagreiðslur – Kvennalið fá 2,5 milljónir
Karlalið í efstu deild í knattspyrnu fengu átta sinnum hærri réttindagreiðslur en kvennalið frá Íslenskum Toppfótbolta fyrir síðasta keppnistímabil. Framkvæmdastjóri Íslensks Toppfótbolta segir markaðslegar ástæður fyrir þessum mun en að það sé alfarið undir félögunum sjálfum komið hvernig greiðslunni er skipt. KSÍ segir skiptinguna á ábyrgð Íslensks Toppfótbolta en bendir einnig á að félögunum sé frjálst að haga skiptingunni að vild.

Tekjuliðurinn var ekki sundurliðaður neitt frekar í ársreikningnum árið 2024 en það var hins vegar gert árið 2022.

Úr rekstrarreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2022.

Söluvarningur og veitingar

Tekjur af söluvarningi og veitingum í rekstrarreikningi Víkings 2020-2024.

Þessi tekjuliður hefur vaxið um 1.409% frá árinu 2020 og hefur gjörsamlega sprengt skalann. CAGR vöxturinn hefur verið 97%. En hvað veldur þessu? Víkingur hefur lagt mikinn metnað í leikdagsupplifun hjá sér og þau hafa í raun bara búið til vörumerki úr ýmsum hlutum sem standa áhorfendum til boða. Ég er ekki stuðningsmaður Víkings en ég hef hins vegar margoft heyrt talað um Hjaltested hamborgana. Það er ekki bara boðið upp á einhverjar pylsur, það er boðið upp á Geirdal pylsurnar. Ég held að svona lagað skipti máli.

Auglýsing fyrir leikdag á X síðu Víkings.

Þá hefur Víkingur einnig lagt mikinn metnað í markaðssetningu á treyjunum sínum á síðustu árum sem hefur eflaust skilað einhverju.

Hluti af myndaseríu fyrir nýjan aðalbúning Víkings sem var kynntur til leiks fyrir síðasta tímabil.

Aðrar rekstrartekjur

Aðrar rekstrartekjur í rekstrarreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2020-2024.

Aðrar rekstrartekjur svoleiðis ruku upp á síðasta ári en undir þeim tekjulið eru Evróputekjurnar tekjufærðar. Tekjufærslan á þeim var samtals 836.927.711 kr. á síðasta ári.

Sundurliðun á öðrum rekstrartekjum úr skýringum ársreiknings knattspyrnudeildar Víkings 2024.

Leikmannasölur

Tekjur af leikmannasölum í ársreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2024.

Víkingur hefur samtals fengið 182.819.588 kr. fyrir leikmannasölur frá árinu 2020. Mér þykir afskaplega líklegt að þessi tekjuliður verði hærri en 100 milljónir kr. árið 2025 út af sölunum á Ara Sigurpáls, Danijel Djuric og Gísla Gotta.


Gjöldin

Heildargjöld í ársreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2020-2024.

Með auknum tekjum fylgja gjarnan aukin gjöld, og það er raunin hjá Víkingum. Hluta kostnaðarins má auðvitað rekja til árangursins í Sambandsdeildinni, en við skulum skoða betur í hvað útgjöld Víkings eru að fara í.

Sundurliðuð gjöld

Víkingur sundurliðar útgjöldin sín í fimm gjaldaliði í ársreikningnum sínum: vörunotkun, laun og launatengd gjöld, skrifstofu- og stjórnunarkostnaður, annar rekstrarkostnaður, og afskrift.

Vörunotkun

Vörunotkun í rekstrarreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2020-2024.

Undir vörunotkun ættu að falla hlutir eins og sjúkravörur, búningar, boltar og annað. Mikil aukning í þessum gjaldalið á síðasta ári.

Laun og launatengd gjöld

Laun og launatengd gjöld, og launahlutfall Víkings 2020-2024

Laun og launatengd gjöld hafa vaxið um 263% á tímabilinu og CAGR vöxturinn er 38%. Launahlutfallið lækkaði hressilega á milli ára, en við þurfum auðvitað að hafa í huga að árið 2024 er „óhefðbundið“ út af Evróputekjunum. Víkingur datt út í fyrstu umferð árið 2023 og tekjufærði 62 milljónir kr. fyrir Evrópukeppni. Við sjáum að það ár var launahlutfallið það hæsta sem það hefur verið á þessu fimm ára tímabili. Því skal þó haldið til haga að það eru ýmis félög með hærra launahlutfall en 60,6%. En ef við skoðum meðallaunahlutfallið yfir þetta fimm ára tímabil þá er það 43,3%.

Úr skýringum í ársreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2024.

Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður

Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður í rekstrarreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2020-2024.

Skrifstofu- og stjórnunarkostnaðurinn hækkaði um rúmlega 40% á milli ára. Eins og sést í umfjölluninni um launin hér að ofan þá fóru ársverk úr því að vera átta upp í tólf, þetta á sér því allt eðlilegar skýringar.

Annar rekstrarkostnaður

Annar rekstrarkostnaður í rekstrarreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2020-2024.

Annar rekstrarkostnaður hækkaði mikið á milli ára og ef við kíkjum á skýringarnar þá var mikil aukning í ferðakostnaði. Það á sér auðvitað eðlilegar skýringar. Víkingur þurfti að ferðast til Albaníu, Andorra, Armeníu, Austurríkis, Eistlands, Finnlands, Grikklands, Írlands og Kýpurs. Þetta hefur heldur betur kostað sitt, en þegar maður skoðar þessa tölu í samanburði við tekjurnar sem þeir fengu á móti þá er ekki hægt að kvarta mikið yfir þessu. Síðan þurfti Víkingur að leigja Kópavogsvöll til þess að spila leikina í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar. Þrír leikir samtals í Kópavogi þýðir að leiguverðið per leik hefur verið 4.235.000 kr. Vallarleigan á Bolt Arena í Helsinki verður gjaldfærð í ársreikningnum fyrir árið 2025, verður fróðlegt að vita hver verðmiðinn hjá Finnunum sé.

Sundurliðun á öðrum rekstrarkostnaði úr skýringum ársreiknings knattspyrnudeildar Víkings 2024.

Afskriftir

Afskriftir í rekstrarreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2020-2024

Afskriftirnar skiptast í afskrift á rekstrarfjármunum og afskrift á keyptum leikmannasamningum. Ég hugsa að flestir hafi meira áhuga á afskriftum leikmanna frekar en afskriftum rekstrarfjármuna þannig skoðum það fyrrnefnda aðeins betur.

2024: Meistaraflokkur karla - 3.319.836 kr. / Meistaraflokkur kvenna - 70.000 kr.
2023: Meistaraflokkur karla - 2.867.270 kr. / Meistaraflokkur kvenna - 80.000 kr.
2022: Meistaraflokkur karla - 6.732.250 kr. / Meistaraflokkur kvenna - 0 kr.
2021: Meistaraflokkur karla - 100.000 kr. / Meistaraflokkur kvenna - 0 kr.
2020: Meistaraflokkur karla - 715.000 kr. / Meistaraflokkur kvenna - 0 kr.

Ég hef hins vegar ýmislegt við fyrirkomulag afskrifta á leikmannasamningum íslenskra knattspyrnuliða að athuga. Um þessar mundir er ég að leggja lokahönd á BSc ritgerðina mína þar sem ég fer meðal annars yfir það, meira um það síðar...


Afkoman

Ef við tökum leikmannasölur og fjármagnsliði út fyrir sviga og horfum á rekstrartekjur og rekstrargjöld þá er uppsöfnuð rekstrarafkoma Víkings frá árinu 2020-2024 samtals 302.237.714 kr. Heildarafkoma Víkings á þessu tímabili er hins vegar 480.070.167 kr.


Eignir

Heildareignir í efnahagsreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2020-2024.

Eignir Víkings fjórfölduðust á árinu 2024 og þar spila Evróputekjurnar stóra rullu. Eignir Víkings skiptast í verðgildi leikmanna, rekstrarfjármuni, vörubirgðir, viðskipta- og aðrar skammtímakröfur, kröfur á tengda aðila, verðbréfaeign, handbært fé. Skoðum aðeins betur þessar helstu eignir.

Eignir í efnahagsreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2024.

Verðgildi leikmanna

Verðgildi leikmanna í efnahagsreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2024.

Til útskýringar á því hvaða tölur liggja hér að baki þá eru reikningsskilareglur KSÍ á þann veg að keyptir leikmenn eru eignfærðir á kaupverði þeirra og afskrifaðir yfir samningstímann. Uppaldir leikmenn og leikmenn sem koma á frjálsri sölu til félagsins eru hins vegar eignfærðir skv. stuðlakerfinu og eru verðmetnir á bilinu 100.000-1.000.000 kr. Þessar reikningsskilareglur eru frábrugðnar reikningsskilareglum UEFA, en KSÍ fær undanþágu frá þeim. Þetta er einmitt aðalviðfangsefni BSc ritgerðarinnar minnar, meira um það síðar...

Sundurliðun á verðgildi leikmanna úr skýringum í ársreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2024.

Viðskipta- og aðrar skammtímakröfur

Viðskipta- og aðrar skammtímakröfur í efnahagsreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2020-2024.

Viðskipta- og aðrar skammtímakröfur hækkuðu mikið árið 2024, en stærsti hluti þess ætti að vera vegna Evróputekna sem félagið vissi að væru á leiðinni. Víkingur fékk fjórar greiðslur 17. janúar síðastliðinn og eina 21. mars. Ég ímynda mér að League ranking greiðslan sé ekki inni í viðskiptakröfum Víkings og mögulega gæti verið að Starting fee (residual part) sé talið með í viðskiptakröfum. Þá erum við að tala um að viðskiptakröfur, aðrar en á hendur UEFA, séu á bilinu ca. 35-52 milljónir kr.

Greiðslur sem Víkingur hefur fengið hingað til árið 2025 frá UEFA.
Greiðslufyrirkomulag UEFA fyrir Sambandsdeildina.

Verðbréfaeign

Verðbréfaeign í efnahagsreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2024.

Hvað gerði Víkingur við peninginn sem frúin í Hamborg (UEFA) gaf þeim? Jú það voru auðvitað keypt verðbréf. Alla jafna fín leið til þess að ávaxta pening til langs tíma. En það er áhugavert að sjá Víking fara þessa leið, þeir eru alls ekki eina liðið sem hefur gert þetta. Breiðablik og KA eiga einnig verðbréf og HK átti verðbréf sem þeir seldu árið 2023. Ein leið sem ég er mjög skotinn í er sú að kaupa íbúðir, ÍA hefur gert það. Víkingur gæti hæglega staðgreitt íbúð eða tekið mjög hagstætt lán. Síðan gæti félagið sótt öflugan erlendan leikmann sem gæti verið í íbúðinni og hann kemur þeim langt í Evrópukeppni, Víkingur fær meiri pening...eða það væri allavega sviðsmyndin þar sem allt gengur upp.

Handbært fé

Handbært fé í efnahagsreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2020-2024.

Meðalstaða handbærs fjár á tímabilinu er 39.779.652 kr. sem er frekar gott fyrir knattspyrnudeild.


Eigið fé

Eigið fé í efnahagsreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2020-2024

Eigið fé fimmfaldaðist næstum því á árinu 2024 sem er auðvitað þökk sé 415 milljón kr. hagnaði á árinu sem má rekja til árangursins í Sambandsdeildinni.


Skuldir

Skuldir og veltufjárhlutfall knattspyrnudeildar Víkings 2020-2024

Viðskipta- og aðrar skammtímaskuldir jukust um rúmlega 31 milljón kr. árið 2024 og skuldir standa því núna í næstum því 62 milljónum kr. Það er hins vegar ekki áhyggjuefni fyrir Víking með allt þetta handbæra fé og verðbréfaeignirnar sem þeir gætu selt. Þá er veltufjárhlutfall Víkings 2024 töluvert hærra en hjá til dæmis Breiðabliki (1,84).


Sjóðstreymi

Sjóðstreymisyfirlit í ársreikningi knattspyrnudeildar Víkings 2024.

Stærstu breytingarnar á milli ára í sjóðstreyminu:

Afkoma - Mikil sveifla auðvitað vegna Evróputekna.

Söluhagnaður leikmanna/söluverð leikmanna - Þessi tala mun hækka aftur árið 2025 með sölunum á Ara Sigurpáls, Gísla Gotta og Danijel Djuric.

Skammtímakröfur - bróðurpart hækkunarinnar má líklegast rekja til Evróputeknanna

Verðbréfaeign - Keyptu verðbréf fyrir peninginn sem frúin í Hamborg gaf þeim líkt og var fjallað um fyrr í þessari grein.


Ársreikningar


Samfélagsmiðlar

facebook.com/utanvallar

linkedin.com/company/utanvallar

instagram.com/utanvallar

tiktok.com/@utanvallar

x.com/utanvallar