Eignfærsla leikmannasamninga í sögulegu samhengi

Ég skilaði nýverið inn BSc ritgerðinni minni sem ber heitið Eignfærsla leikmannasamninga í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða. Viðfangsefni ritgerðarinnar er undanþága sem KSÍ fær frá reikningsskilareglum UEFA varðandi eignfærslu leikmannasamninga í ársreikningum. Á grundvelli undanþágunnar er svokallað stuðlakerfi notað sem leið til þess að verðmeta leikmenn í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða. Í ritgerðinni var leitast við að svara þremur rannsóknarspurningum:
- Hvaða áhrif hefur stuðlakerfið á ársreikninga íslenskra knattspyrnufélaga?
- Er stuðlakerfið í samræmi við lög og reglur?
- Er stuðlakerfið nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög?
Í stuttu máli þá hefur stuðlakerfið víðtæk áhrif á ársreikningana, en þó er fjárhæðirnar sjálfar óverulegar. Einnig var það niðurstaða mín að stuðlakerfið væri ekki í samræmi við ársreikningalögin né alþjóðlega reikningsskilastaðla. Loks tel ég að stuðlakerfið sé ekki nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög og að KSÍ þurfi að hætta með undanþáguna og aðlaga sig að reikningsskilareglum UEFA.
Næstu daga mun ég birta búta úr ritgerðinni.
Fyrsta tilfelli eignfærslu leikmannasamninga hjá íþróttaliði
Bandaríska hafnaboltaliðið Milwaukee Braves, í dag Atlanta Braves, var fyrsta íþróttaliðið til þess að eignfæra leikmannasamninga en þeir gerðu það á árunum 1962 til 1965. Í efnahagsreikningnum var að finna eignarlykil sem hét leikmannasamningar og þróunarkostnaður (e. player contracts and development cost) og þessi eign var afskrifuð yfir líftímann sinn. Þetta svipar að mörgu leyti til þeirra reikningsskilareglna sem gilda í dag um knattspyrnufélög. Að sögn John J. McHale, stjórnarformanns Milwaukee Braves, var þetta gert af því kostnaðurinn við þróun liðsins (e. team development) væri sambærilegt kostnaði fyrirtækja í rannsóknir og þróun. Í ársskýrslu félagsins frá árinu 1966 kom fram að breyting hefði orðið á reikningsskilaaðferðum liðsins til þess sem áður var í tengslum við þróun liðsins til þess að vera í samræmi við önnur lið í deildinni (Flamholtz, 1999).
Eignfærsluvenjur knattspyrnuliða á tíunda áratugnum
Hvað knattspyrnuheiminn varðar þá var venjan sú, á tíunda áratug síðustu aldar, að leikmannasamningar voru ekki eignfærðir heldur gjaldfærðir. Það var þó lítið samræmi í þessu milli landa og jafnvel milla liða innan sama lands (Pavlović o.fl., 2014).
Á tíunda áratugnum í Bretlandseyjum gjaldfærðu flest félög allt kaupverðið á þeim tíma sem félagsskiptin áttu sér stað. Sum félög gjaldfærðu kaupin undir rekstrarkostnað í rekstrarreikningnum á meðan önnur félög gjaldfærðu þau meðal óreglulegra liða (Rowbottom, 1998). Hins vegar voru einhver dæmi um það að knattspyrnulið þar í landi eignfærðu leikmannasamninga. Lundúnarliðið Tottenham Hotspur var fyrsta enska liðið sem eignfærði leikmannasamninga en það gerðist árið 1989 (Morrow, 2006). Rétt áður en dómur féll hjá Evrópudómstólnum í Bosman-málinu, um miðbik tíunda áratugarins, voru þrettán ensk lið og fimm skosk lið sem eignfærðu leikmannasamninga, þó með mismunandi aðferðum. Algengasta aðferðin var sú að félag eignfærði leikmannasamning sem óefnislega eign og afskrifaði kostnaðarverðið, að frádregnu áætluðu hrakvirði, yfir samningstíma leikmannasamningsins (Amir og Livne, 2005). Sum félög eignfærðu hins vegar allt liðið, þar á meðal uppalda leikmenn, og var virðið byggt á hlutlægu mati félagsins (Pavlović o.fl., 2014). Þetta mat félagsins var ýmist byggt á mati stjórnenda eða þjálfara (Rowbottom, 1998).
Annað sem er athyglisvert er það hvaða bresku lið það voru sem eignfærðu leikmannasamninga á þessum tíma. Á Englandi var Tottenham Hotspur eina liðið í efstu deild sem eignfærði leikmannasamninga, hin liðin spiluðu í neðri deildum Englands. Í Skotlandi voru hins vegar fjögur af tíu liðum í efstu deildinni sem eignfærðu leikmannasamninga. Það getur verið að hér spili inn í sú staðreynd að skoska liðið Rangers eignfærði leikmannasamninga en þeir voru algjört yfirburðalið í skoskri knattspyrnu á þessum árum og unnu meðal annars efstu deildina níu ár í röð (Rowbottom, 1998). Árið 1997 gaf breska reikningsskilaráðið út FRS 10 sem fjallaði um viðskiptavild og óefnislegar eignir en staðallinn var innleiddur ári seinna. Þessi reikningsskilastaðall var þess valdandi að nú gátu bresk knattspyrnulið ekki valið á milli þess að eignfæra eða gjaldfæra leikmannakaup, þau voru skyldug til þess að eignfæra keypta leikmannasamninga (Amir og Livne, 2005).
Hinum megin við Ermarsundið í Frakklandi voru félagsskipti flokkuð sem fyrirframgreidd gjöld. Í Júgóslavíu voru hins vegar leikmannakaup gjaldfærð í heild sinni á þeim tíma sem þau áttu sér stað, eins og flest bresk lið gerðu einnig á þessum tíma (Pavlović o.fl., 2014). Á svipuðum tíma í Hollandi voru hins vegar öll félög þar í landi skikkuð til þess eignfæra leikmannasamninga (Rowbottom, 1998).
Nokkrum árum síðar, eða árið 1998 var IAS 38 reikningsskilastaðallinn gefinn út af alþjóðlegu reikningsskilanefndinni og leyfisreglugerð UEFA var kynnt til sögunnar árið 2002. Þetta tvennt gerði það að verkum að öll lið urðu skyldug til þess að eignfæra leikmannasamninga (UEFA, 2015).
Áhrif Bosman-málsins
Jean-Marc Bosman er belgískur fyrrverandi knattspyrnumaður sem er betur þekktur fyrir það sem hann gerði utan vallar en tilburði innan vallar knattspyrnunnar. Á sínum tíma var það þannig að þegar leikmaður rann út á samning þá var honum ekki frjálst að semja við annað félag eins og honum sýndist, eins og raunin er í dag. Nýja félag leikmannsins þurfti að komast að samkomulagi um kaupverð á leikmanninum við gamla félagið, en þrautaganga Bosman fyrir dómstólum átti eftir að breyta því. Bosman var samningsbundinn RC Liège til 30. júní 1990. Í aprílmánuði bauð RC Liège honum nýjan árslangan samning með 75% launalækkun sem honum hugnaðist ekki. Franska liðið USL Dunkerque ætlaði sér að kaupa Bosman og var samið um kaupverð í júlímánuði 1990. RC Liège efaðist hins vegar um það að USL Dunkerque gæti staðið skil á umsömdu kaupverði og ákvað því að flytja ekki leikheimild Bosman yfir til USL Dunkerque. Í kjölfar þess ákvað RC Liège að setja Bosman í frystikistuna og kom þar með í veg fyrir að hann gæti spilað fótbolta í heilt tímabil. Bosman leitaði til belgískra dómstóla og málið rataði á endanum alla leið til Evrópudómstólsins. Það var mat dómstólsins að þáverandi fyrirkomulag félagsskipta í knattspyrnu hamlaði frjálst flæði vinnuafls og að RC Liège hefði brotið á 48. gr. Rómarsáttmálans með því að hafa staðið í vegi fyrir félagsskiptum Bosman (Jean-Marc Bosman g. RC Liège, 1995).
Dómurinn hafði það í för með sér að þegar leikmaður rann út á samningi hjá félagsliði gat hann nú skrifað undir nýjan samning við annað félag innan Evrópusambandsins án þess að nýja félagið þyrfti að greiða fé til gamla félagsliðsins. Dómurinn einfaldlega tryggði frjálsa för knattspyrnumanna innan Evrópusambandsins. Nokkru síðar, eða árið 2001, innleiddi FIFA þessa reglu hjá sér og á hún núna við um öll knattspyrnulið heimsins (Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, 2001).
Þau félög sem eignfærðu leikmannasamninga fyrir Bosman málið afskrifuðu leikmenn með tilliti til ákveðins hrakvirðis. Ef leikmaður A var keyptur á eina milljón evra þá gerði félagið ráð fyrir því hvert hrakvirði leikmannsins væri þegar samningurinn myndi renna út. Leikmannasamningurinn var svo afskrifaður línulega yfir samningstímann niður í hrakvirði. Eftir Bosman málið voru engin rök fyrir því að færa virði leikmanna niður í hrakvirði með afskriftum, þar sem félög gátu ekki lengur krafist peninga vegna félagsskipta leikmanna sem voru orðnir samningslausir hjá félaginu (Morris o.fl., 1996).
Björgum knattspyrnunni
Undir lok árs 2002 lagði Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, fram tilskipun sem síðar varð að lögum snemma árs 2003. Þessi lög fengu viðurnefnið Salva Calcio sem myndi útleggjast sem „björgum knattspyrnunni“ á okkar ylhýra tungumáli. Lögin gerðu knattspyrnuliðum kleift að fara úr því að afskrifa leikmannasamninga eftir lengd samningsins yfir í það að afskrifa þá á tíu árum. Fyrirkomulagið var þannig að bókfært verð leikmannasamninga var fært niður í matsverð samkvæmt mati sérfræðings. Mismunur bókfærða verðsins og matsverðsins var svo fært yfir á svokallaða salva calcio eign. Nýja matsverðið var afskrifað í samræmi við lengd leikmannasamninga en salva calcio eignin var afskrifuð á tíu árum. Lögin voru umdeild en ítölsk knattspyrnulið áttu við fjárhagsörðugleika að stríða á þessum tíma og Berlusconi var eigandi AC Milan. Í efstu deild Ítalíu voru sjö lið sem tóku upp Salva Calcio reikningsskilareglurnar og í næstefstu deild voru átta lið sem gerðu slíkt hið sama. Hér væri hægt að nefna sem dæmi Rómarborgarliðið SS Lazio. Fjárhagsárið 2003 voru 213 milljónir evra færðar yfir á salva calcio eignina. Árleg afskrift þeirrar eignar var því 21,3 milljónir evra. Afskriftir félagsins fóru úr því að vera 75,5 milljónir evra árið 2002 niður í 37,7 milljónir evra árið 2003. Þessi skapandi æfing í bókhaldi hafði því auðvitað áhrif á rekstrarafkomu Lazio (Morrow, 2006). Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins taldi þessi lög stangast á við tilskipanir þess og að endingu voru lögin felld úr gildi árið 2005 (European Commission, 2005). Af þessu dæmi má sjá að eignfærsla leikmannasamninga getur haft veigamikil áhrif á ársreikninga knattspyrnuliða.
Hámarkstími afskrifta
Árið 2022 gaf UEFA út uppfærða leyfisreglugerð, hin svokallaða UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations. Sú leyfisreglugerð leysti af hólmi eldri leyfisreglugerð sem hét UEFA Club Licensing and Financial Fair Play Regulations. Einungis ári síðar gerði UEFA nokkuð stóra breytingu á leyfisreglugerðinni í tengslum við afskriftir leikmannasamninga í ársreikningum knattspyrnuliða (UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations, 2022). Sú breyting var gerð eftir að Lundúnarliðið Chelsea FC nýtti sér glufu í leyfisreglugerðinni.
Í 2022 útgáfunni, og raunar öllum útgáfum leyfisreglugerðar UEFA frá árinu 2002, var einungis tilgreint að leikmannasamningar skyldu vera afskrifaðir yfir samningstímann (UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations, 2022). Í knattspyrnuheiminum heyrði það til undantekninga að leikmenn fengu samning sem var lengri en fimm ár (Sheldon, 2023). Það átti hins vegar eftir að breytast með kaupum fjárfestingahóps, með hinum bandaríska Todd Boehly í fararbroddi, á enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea FC (Clearlake Capital, 2022). Bláklædda liðið, sem Eiður Smári spilaði eitt sinn fyrir, byrjaði að kaupa unga leikmenn í stórum stíl og gaf þeim langa samninga. Eitt slíkt dæmi var úkraínski vængmaðurinn Mykhailo Mudryk sem Chelsea keypti í janúarmánuði 2023 á 89 milljónir punda. Mudryk fékk átta og hálfs árs langan samning til ársins 2031. Árleg afskrift samningsins er því rúmlega 10,5 milljónir punda í stað 17,8 milljónir punda ef hann hefði fengið fimm ára samning. Chelsea gat því „sparað“ sér 7,3 milljónir punda á ári í rekstrarreikningnum með þessu móti. UEFA litu þessa þróun hornauga og þeir voru fljótir að grípa í taumana sumarið 2023 þegar þeir breyttu afskriftarreglunum í leyfisreglugerð UEFA. Reglunum var breytt á þá vegu að félög þyrftu nú að afskrifa leikmannasamninga í samræmi við lengd þeirra, þó að hámarki fimm ár (BBC, 2023).
Reglubreytingarnar virka ekki afturvirkt þannig Chelsea getur afskrifað þá samninga sem gerðir voru við leikmenn fyrir breytinguna yfir alla lengd leikmannasamningsins, þó þeir séu ekki leyfilegir samkvæmt nýjustu reikningskilareglum UEFA. Ef við skoðum leikmannakaupin sem Chelsea gerði tímabilið 2022/23, þ.e. frá yfirtöku fjárfestingahópsins til reikningsskilareglubreytingar UEFA, þá mun félagið „spara“ sér rúmlega 32 milljónir evra árlega í afskriftum. Þetta má sjá á meðfylgjandi mynd.

Þróunin á Íslandi
Stuðlakerfi KSÍ, sem fjallað er nánar um í kafla 5, var komið á laggirnar árið 1990. Þetta var gert í kjölfar þess að „áhugamannareglur“ voru afnumdar og íslensk knattspyrnulið í efstu deild karla urðu skyldug til þess að vera með leikmannasamninga. Tildrögin voru þau að á 44. ársþingi KSÍ, sem haldið var árið 1989, var samþykkt að skipa fimm manna milliþinganefnd sem hafði það verkefni að leggja fram tillögur um félagaskipti leikmanna, samninga milli leikmanna og félaga, og afnám áhugamannareglna KSÍ. Ástæðan fyrir því að þessi nefnd var sett á fótinn var sú að félög voru farin að gera samninga við suma leikmenn sem einhverjir töldu að væru farnir að binda leikmenn átthagafjötrum („Drög að samningum við leikmenn á borðinu“, 1990). Um þetta var meðal annars fjallað á opnu Pressunnar 28. júní árið 1990. Umfjöllunarefni greinarinnar voru hlunnindi leikmanna. Þar sagði frá því að bestu leikmenn efstu deildar fengu allt að 500 þúsund krónur á mánuði með ýmsum hætti, hvort sem það var í formi peninga, hlunninda eða öðru. Fjársterkustu liðin gátu með þessu móti lokkað til sín bestu leikmennina og minni liðin sátu eftir með sárt enni þar sem enginn leikmannasamningur var til staðar til þess að krefjast félagaskiptagjalds (Friðrik Þór Guðmundsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, 1990).
Tillaga milliþinganefndarinnar var samþykkt á 45. ársþingi KSÍ, sem haldið var árið 1990, og með tillögunni lítur dagsins ljós svokallað stuðlakerfi („Áhugamannareglurnar afnumdar“, 1990). Tilgangurinn með stuðlakerfinu var að mynda grunn að félagaskiptagjaldi leikmanna sem skiptu um félag eftir að samningur þeirra við gamla félagið rann út. Hvatinn var því nokkurn veginn sá sami og er með uppeldisbótunum sem þekkjast í knattspyrnuheiminum í dag. Þá voru einhverjar áhyggjur uppi um að félagaskiptagjöld myndu rjúka upp úr öllu valdi og verða himinhá. Stuðlakerfið átti því einnig að stemma stigu við því. Það var því nokkurs konar sanngirnissjónarmið haft að leiðarljósi þegar stuðlakerfið var smíðað (Viðmælandi B, munnleg heimild, 4. mars 2025).
Árið 2003 kom UEFA síðan á laggirnar svokölluðu leyfiskerfi sem er í raun samræmdar reglur um uppbyggingu, innviði, fjármál, yngri flokka starf og fleira hjá knattspyrnuliðum. Þar var meðal annars að finna reikningsskilareglur um eignfærslu leikmannasamninga, en nánar er fjallað um það í kafla fjögur. KSÍ innleiddi leyfiskerfið hjá sér en sótti um undanþágu frá reikningsskilareglum varðandi eignfærslu leikmannasamninga. Mönnum þótti það vera einfaldara að fá undanþágu til þess að nota stuðlakerfið í stað þess að innleiða reikningsskilareglur UEFA í þessum efnum. Þá var einnig hægt að nýta stuðlakerfið sem leið til þess að búa til eignir í ársreikningum félaganna. Leikmannakaup voru fáheyrð á þessum árum og því hefði ekki verið hægt að búa til eignir með reikningsskilareglum UEFA. Um þessa undanþágu ríkti almenn sátt hjá íslenskum knattspyrnuliðum og UEFA hafði ekkert við þessa undanþágu að athuga og samþykkti því hana. Þar með er hægt að rekja upphafspunkt eignfærslu leikmannasamninga á Íslandi til ársins 2003. Allar götur síðan hefur KSÍ sótt um undanþáguna, fyrst um sinn árlega en í seinni tíð til þriggja ára í senn, og UEFA hefur aldrei fett fingur út í það. Árið 2016 var stuðlakerfið svo lagt niður sem grunnur að félagaskiptagjaldi en ennþá var til staðar vilji hjá félögunum að halda í stuðlakerfið sem leið til þess að verðmeta leikmenn í ársreikningum. Stuðlakerfið er því enn þann dag í dag notað sem leið til þess að verðmeta leikmenn svo hægt sé að eignfæra þá í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða (Viðmælandi B, munnleg heimild, 4. mars 2025).