Evróputekjur kvennaliðs Breiðabliks
Kvennalið Breiðabliks er komið í 16-liða úrslit nýstofnaðs Evrópubikars hjá UEFA. Þar mæta þær dönsku meisturunum Fortuna Hjörring. Í gær fékk Breiðablik greiðslu fyrir viðureignina í síðustu umferð.
Greinin var einnig birt á fotbolti.net
Kvennalið Breiðabliks hóf Evrópuþátttöku sína í 2. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Félagið tók þátt í fjögurra liða riðli sem fór fram á heimavelli FC Twente, en sem gestalið fær Breiðablik 80 þúsund evrur. Þar endaði Breiðablik í öðru sæti, en fyrir það fær liðið 12 þúsund evrur. Breiðablik fékk því samtals 92 þúsund evrur fyrir þátttöku sína í annarri umferð, en það var greitt af UEFA þann 12. september. Miðað við evrugengið þann dag fékk Breiðablik 13.211.200 krónur.
Þar sem Breiðablik lenti í öðru sæti dettur það niður í undankeppni nýstofnuðu Evrópubikarskeppninnar. Þar byrjaði Breiðablik í 2. umferð undankeppninnar og fékk fyrir vikið 65 þúsund evrur, en sú fjárhæð er óháð úrslitum. Þar mætti Breiðablik serbneska liðinu ZFK Spartak Subotica. Sú fjárhæð var greidd þann 31. október. Miðað við evrugengið í gær þá fékk Breiðablik 9.412.000 krónur.
Breiðablik hefur því fengið 22.623.200 krónur hingað til frá UEFA fyrir Evrópuþátttöku kvennaliðsins í ár.
Næsti leikur Breiðabliks verður í 16-liða úrslitum Evrópubikarsins en þar mæta þær Fortuna Hjörring og fá fyrir vikið 70 þúsund evrur, óháð því hvort þær sigra eða tapa. Sú fjárhæð verður greidd þann 5. desember.


