Hvað ætti miði á leik að kosta?

Nýju keppnistímabili í ensku úrvalsdeildinni var ýtt úr vör á dögunum og stuðningsmenn ýmist hópa sig fyrir framan sjónvarpið eða leggja leið sína á völlinn til þess að styðja sitt lið. Þá er ekki úr vegi að skoða hvað stuðningsmenn liðanna eru að greiða fyrir ársmiða.
Greinin var fyrst birt í Viðskiptablaðinu.
Fulham með dýrasta ársmiðann
Ársmiðar á velli liðanna eru misdýrir og getur verðmunurinn á dýrasta og ódýrasta miðanum hjá sama liðinu numið ríflega 500%. Ágætt er að taka fram að í þessari yfirferð er verið að tala um ársmiða til einstaklinga, ekki fyrirtækja. Dýrasta ársmiðann er að finna hjá Fulham en sá kostar 3.084 pund, eða um 510 þúsund krónur. Hjá Fulham er einmitt mesti verðmunurinn á dýrasta og ódýrasta miðanum því ódýrasti ársmiðinn á Craven Cottage kostar 486 pund eða 81 þúsund krónur. Dýrasti miðinn er því 535% dýrari en sá ódýrasti. Þeir sem kaupa dýra ársmiðann hjá Fulham sitja í nýrri stúku, glæsilegu mannvirki, sem stendur á bakka Thames-árinnar í London. Næst dýrasti ársmiðinn er á heimavöll Tottenham Hotspur. Ársmiðinn á hinn glæsilega nýja völl liðsins kostar 2.223 pund, sem samsvarar um 368 þúsund krónum. Ódýrasti ársmiðinn á Tottenham Hotspur Stadium kostar 856 pund eða 142 þúsund krónur. Verðmunurinn nemur 160%.
West Ham með ódýrasta ársmiðann
Það er raunar svo að fjórir dýrustu ársmiðarnir í ensku úrvalsdeildinni eru allir hjá félögum í London. Þriðji dýrasti ársmiðinn er á Emirates Stadium, heimavöll Arsenal, en hann kostar 1.726 pund eða 286 þúsund krónur. Ódýrasti ársmiðinn á Emirates kostar 922 pund eða 153 þúsund krónur og er ódýrasti ársmiðinn hvergi dýrari en hjá Arsenal. Liðin í Norður-London, Arsenal og Tottenham, eru heilt yfir með dýrustu ársmiðana í ensku úrsvalsdeildinni. Fjórði dýrasti ársmiðinn er á London Stadium, heimavöll West Ham, en hann kostar 1.720 pund eða 285 þúsund krónur. Þótt West Ham United sé með einn af dýrustu ársmiðunum þá bjóða þeir einnig upp á ódýrasta ársmiðann en hann kostar 354 pund, eða um 59 þúsund krónur.
Hvað með Liverpool?
Í fimmta sæti yfir dýrustu ársmiðana er Manchester City en þar kosta þeir dýrustu
1.600 pund eða 265 þúsund krónur. Töluvert stökk er svo niður í Bournemouth, sem er með sjötta dýrasta ársmiðann en hann kostar 1.164 pund eða 193 þúsund krónur. Í sætunum þar fyrir neðan eru Manchester United og Chelsea. Dýrustu ársmiðarnir á Old Trafford kosta 1.121 pund eða 186 þúsund krónur og dýrustu
miðarnir á Stamford Bridge kosta 1.095 pund eða 181 þúsund krónur. Það kann að vekja athygli að ríkjandi Englandsmeistarar, Liverpool, hafa ekki enn verið nefndir. Ástæðan er sú að dýrustu ársmiðarnir þar kosta „ekki nema“ 904 pund eða 150 þúsund krónur. Þetta þýðir að fjórtán lið í deildinni eru með dýrari ársmiða en Liverpool. Það vekur líka nokkra athygli að dýrustu ársmiðarnir á heimaleiki Everton kosta 900 pund sem jafngildir 149 þúsund krónum. Þetta vekur athygli því Everton er með nýjasta heimavöllinn í úrvalsdeildinni, hinn stórglæsilega Hill Dickinson Stadium, sem rúmar tæplega 53 þúsund
manns. Neðst á listanum yfir dýrustu ársmiðana má svo finna nýliðana tvo, Burnley og Sunderland, en dýrustu ársmiðar þeirra kosta annars vegar 525
pund, eða 87 þúsund krónur, og hins vegar 780 pund, sem jafngildir 129 þúsund krónum.
Mikilvægi leikdagstekn fyrir ensku félögin
Hlutfall leikdagstekna af rekstrartekjum er hæst hjá nýliðunum í Sunderland, þar sem það er 30,5%. Nýliðar Leeds United fylgja á eftir þeim með 24,0%. Á eftir nýliðunum tveimur koma síðan fimm af stóru sex liðunum en það eru Arsenal, Manchester United, Tottenham Hotspur, Chelsea og Liverpool. Hlutfall leikdags-
tekna hjá þessum stóru félögum er á bilinu 16,6% til 21,4%. Þá er hlutfallið lægst hjá Bournemouth, tæp 4,1%, en að meðaltali er hlutfallið 13,9% hjá liðunum sem spila í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Úrvalsdeildarfélögin búa þó við þann munað að geta fyllt völlinn á flestum leikjum.

Þýsk tilraun lofar góðu
Í þessu samhengi er áhugavert að nefna tilraun sem Fortuna Dusseldorf hefur verið að fikra sig áfram með að undanförnu. Félagið spilar í þýsku B-deildinni á leikvangi sem rúmar ríflega 54 þúsund manns. Þeir stóðu hins vegar frammi fyrir þeim vanda að geta ekki fyllt völlinn af áhorfendum. Meðaláhorfenda fjöldinn þeirra hafði verið í kringum 30 þúsund. Tímabilið 2023/24 bauð félagið upp á frían aðgang á þrjá heimaleiki. Þrátt fyrir það hækkuðu miðasölutekjur um 28% á milli ára og fjöldi skráðra meðlima hjá félaginu hækkaði einnig. Tilraunin gekk svo vel að félagið ákvað að bjóða áhorfendum ókeypis aðgang að fjórum leikjum á síð-
asta tímabili. Á þessu tímabili verður síðan boðið upp á fimm fría heimaleiki. Áhugasamir þurfa að sækjast eftir því að fá miða á þessa leiki. Dusseldorf hefur boðið upp á sjö fría leiki frá því að tilraunin hófst og umsóknir hafa verið ríflega 700 þúsund í heildina en lausir miðar einungis 382 þúsund. Eftirspurnin hefur því verið tvöfalt meiri en framboðið á miðum.
Miðasölutekjur íslenskra félaga
Það er því hægt að velta fyrir sér hvort þessi tilraun Fortuna Dusseldorf, sé eitthvað sem íslensk félög ættu að líta betur á. Hjá þeim íslensku knattspyrnufélögum sem sundurliða miðasölutekjur í ársreikningnum sínum er hlutfall þeirra af rekstrartekjum að meðaltali 3,7%. Það kemur vissulega fyrir að félög bjóði stuðningsmönnum frítt á leiki, oftar en ekki í boði einhvers bakhjarls. En hvað
ef félag myndi fara í gagngert átak og bjóða upp á fría leiki? Það er vissulega staðreynd að rekstur íþróttafélaga á Íslandi er hark fyrir flest félög og hver
einasta króna skiptir máli. En ekki eru öll verðmæti mæld í peningum. Hvers virði ætli full stúka sé og hvaða áhrif getur það haft í för með sér?

Fréttirnar á vb.is



