Júlí 2025

Margt og mikið sem gerðist í júnímánuði, stiklum á stóru á öllu því helsta.
Bucks
Damian Lillard sleit hásinin í apríl síðastliðnum, en slík meiðsli geta oft reynst erfið. Lillard er 35 ára gamall og átti tvö ár eftir af samningnum. Útistandandi virði samningsins var ca. 113 milljónir dollara, sem er helvíti drjúgt í ljósi þess að óljóst er hvort hann geti spilað eitthvað af viti á næsta tímabili. Bucks ákváðu því að leysa hann undan samningi en með því að gera það geta þeir teygt greiðslutímabilið, svokallað stretch provision. Liðum er í slíkum tilfellum heimilt að teygja greiðslutímabilið yfir tvöfalda lengd samningstímabilsins plús auka ár. Bucks gátu því teygt tveggja ára samning Lillard upp í fimm ár. Launagreiðslurnar hans fara þá úr því að vera ca. 56,5 milljónir dollara næstu tvö árin í það að vera ca. 22,6 milljónir dollara næstu fimm árin. Þar með er Bucks búið að liðka til pening innan launaþaksins.


Brescia sparkað úr Serie C sökum gjaldþrots
Ítalska félagið Brescia, sem Birkir Bjarnason og Hólmbert Aron Friðjónsson spiluðu eitt sinn fyrir, fékk ekki keppnisleyfi í Serie C frá ítalska knattspyrnusambandinu og var sparkað úr deildinni á dögunum. Ástæðan er sú að félagið er orðið gjaldþrota
Hull City
Hull City voru settir í félagaskiptabann fyrir næstu þrjá félagaskiptaglugga. Ástæðan er sú að félagið greiddi félagaskiptagjöld, í tengslum við lán á kantmanninum Louie Barry frá Aston Villa, of seint. Skömmu síðar fékk félagið viðvörun um að greiða félagaskiptagjöld, í tengslum við lán á varnarmanninum Fin Burns frá Manchester City, ella myndi þeir hljóta aðra refsingu. Hull greiddi þó innan tímamarka. Þá ætlar Hull sér að áfrýja félagaskiptabanninu.


Chelsea og Aston Villa sektuð af UEFA
Chelsea og Aston Villa voru sektuð af UEFA fyrir að hafa of hátt launahlutfall. Chelsea fékk sekt upp á 31 milljón evra en Aston Villa 11 milljónir evra. Reglurnar er að finna í 94. gr. leyfisreglugerðar UEFA (e. UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations). Þetta tiltekna ákvæði var fyrst innleitt árið 2022 og launahlutfallið hefur verið stiglækkandi síðan þá. Tímabilið 2023/24 var það 90%, tímabilið 2024/25 var það 80% og tímabilið 2025/26 verður það 70%.



Manchester United og Amazon
Amazon vildi gera All or Nothing seríu um Manchester United á komandi tímabili en Ruben Amorim var lítt hrifinn af því. Þar með missti Manchester United af tíu milljónum punda. Á síðasta fjárhagsári voru tekjur Manchester United 662 milljónir punda og því hefði þessi Amazon samningur verið 1,5% af því.


Lyon heldur sæti sínu
Franska félagið Olympique Lyonnais var dæmt úr efstu deildinni um daginn sökum fjárhagsvandræða. Félagið áfrýjaði þessu og úrskurðurinn var felldur niður, því mun Lyon spila í efstu deild á komandi tímabili.
https://www.reuters.com/sports/soccer/olympique-lyonnais-remain-ligue-1-after-appeal-2025-07-09/
FC Fredericia
FC Fredericia mun spila í dönsku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn á næsta tímabili. Það er nú kominn nýr hluthafi í eigendahópinn, Melvin Kakooza. Sá er 34 ára gamall uppistandari, leikari o.fl. Ég hef aldrei heyrt um kauða en í fljótu bragði sýnist mér að það væri kannski hægt að líkja honum við Steinda Jr. til dæmis. Á svipuðum tíma birti Bold.dk frétt þar sem fjallað var um rúmlega sex milljón DKK hlutafjáraukningu sem mátti sjá í ársreikningi FC Fredericia. Í fréttatilkynningu tilkynnti svo FC Fredericia að félagið ætli sér að sækja sér tólf milljónir DKK samtals í hlutafjáraukningu.



Fremad Amager fær innspýtingu
Danska félagið Fremad Amager, sem spilar í þriðju efstu deild, fékk innspýtingu frá eiganda sínum eins og sjá má í 2024 ársreikningnum. Félagið tekjufærði auglýsingatekjur (d. markedsføringssalg) upp á DKK 20,8 milljónir frá eiganda sínum. Félagið er í eigu Salescorp Denmark ApS, sem er einhvers konar símasölufyrirtæki. Þessi upphæð er að sjálfsögðu ekki í samræmi við markaðsverð og mætti í raun líkja við hlutafjáraukningu. Samkvæmt frétt bold.dk er þetta þó innan ramma laganna.

Risasamningur Manchester City og Puma
Manchester City gerði nýjan tíu ára treyjusamning við Puma. Virði samningsins er talið vera í kringum milljarð punda, eða hundrað milljónir punda á ári. Í fyrri treyjusamningnum fékk Manchester City 65 milljónir punda á ári.
Fjárhæðirnar í samhengi
1 milljarðar punda = 164 milljarðar króna
Tekjur Festi hf. árið 2024 voru 156,7 milljarðar króna
100 milljónir punda = 16,4 milljarðar króna
Tekjur skráðu símfyrirtækjana þriggja (Nova, Síminn, Sýn) á Q1 2025 voru 15,5 milljarðar króna
65 milljónir punda = 10,7 milljarðar króna
Tekjur Lyfja árið 2024 voru 9,4 milljarðar króna


