Margt og mikið sem gerðist í júnímánuði, stiklum á stóru á öllu því helsta.
Skráðu þig á póstlistann!
Fáðu tilkynningu um leið og það kemur ný grein.
Kostar ekkert og alltaf hægt að afskrá sig.
Roman Abramovich
Breska ríkisstjórnin hefur hótað því að kæra Roman Abramovich, fyrrverandi eiganda Chelsea, ef peningurinn sem hann fékk fyrir söluna rennur ekki til Úkraínu. Abramovich hefur sagt að hann vilji að peningurinn fari til allra fórnarlamba stríðsins en ekki einungis til Úkraínu. Peningurinn var frystur á breskum bankareikningi eftir söluna en aðilarnir hafa deilt um það hvernig þeim skuli vera útbýtt.
Crystal Palace tryggði sér þátttökurétt í Evrópudeildinni á næsta tímabili með því að sigra bikarkeppnina í Englandi. Þátttaka Crystal Palace gæti hins vegar verið vandkvæðum bundin. John Textor er einn af eigendum Crystal Palace en hann á 43% hlut í félaginu. Textor á hins vegar einnig 88% hlut í franska félaginu Lyon sem tryggði sér einnig þátttökurétt í Evrópudeildinni á næsta tímabili. Fjölklúbbaeignarhald er óheimilt í félagsliðakeppnum UEFA en ég hugsa nú að það verði hægt að fiffa einhverja hluti til svo að Crystal Palace geti tekið þátt. Svipuð staða var uppi hjá Manchester City og Girona í Meistaradeildinni á þarsíðasta tímabili svo dæmi sé tekið.
Stuðningsmannasveit Álaborgar gaf út yfirlýsingu þar sem eigendur félagsins voru gagnrýndir. Eigendahópurinn keypti fyrst hlut í félaginu í mars 2023 og varð síðan meirihlutaeigandi í félaginu fyrir rúmlega ári síðan. Félagið féll niður úr efstu deild Danmerkur á nýafstöðnu tímabili og stuðningsmenn eru ekki ánægðir með stöðu mála hjá félaginu, í yfirlýsingunni var meðal annars talað um svikin loforð. Í kjölfarið tilkynnti stéttarfélagið 3F Aalborg að þeir myndu hætta sem styrktaraðilar félagsins ef núverandi eigendahópur myndi ekki víkja. Stéttarfélagið hefur verið styrktaraðili félagsins í meira en áratug. Skömmu síðar tilkynnti eigendahópurinn að þeir myndu hætta daglegum afskiptum af starfsemi félagsins og formaðurinn Jan Peters, einn af eigendunum, steig niður úr formannsstólnum.
Viska Digital Assets, íslenskur rafmyntafjárfestingarsjóður birti áhugaverða grein þar sem fjallað var um fjárfestingar PSG í Bitcoin. Franska félagið heldur á 120 Bitcoins sem er metið á ca. 1,6 milljarða króna samkvæmt greininni. Vægast sagt áhugaverð þróun ef knattspyrnufélög eru farin að setja pening í rafmyntir.
Verðlaunafé á Opna franska meistaramótinu í tennis
Opna franska meistaramótið fór fram í júní. Carlos Alcaraz bar sigur úr býtum í einliðaleik karla og fékk 2,9 milljónir dollara í verðlaunafé, ca. 366 milljónir kr. Coco Gauff bar sigur úr býtum í einliðaleik kvenna og fékk einnig 2,9 milljónir dollara í verðlaunafé.
Íslenska sendiráðið í Osló keypti íbúð á dögunum sem kemur til með að vera nýi sendiherrabústaður sendiráðsins. Seljandinn var fyrrverendi knattspyrnumaðurinn Stefan Strandberg. Hann keypti upprunalega þrjár íbúðir á 38 milljónir norskra króna árið 2020 en sameinaði þær í eina íbúð. Íslenska ríkið eyddi svo 60 milljónum norskra króna í íbúðina. Ágætis ávöxtun, en þó spurning hversu mikið Strandberg hefur eytt í framkvæmdir.
Barcelona gaf út tilkynningu þess efnis að matsfyrirtækið Morningstar DBRS væri búið að hækka lánshæfiseinkunn félagsins úr stöðugu (e. stable) í jákvætt (e. positive). Ástæðan er sögð vera að sú að fjárhagstölur félagsins hafa batnað frá því sem var og áætlað er að félagið muni fá meiri tekjur í framtíðinni þegar framkvæmdum á Camp Nou er lokið.
Enn meira um Barcelona. Félagið fór í gegnum skuldabréfaútgáfu, andvirði 424 milljónir evra, til þess að endurfjármagna lánin sín. Afborganir áttu upphaflega að hefjast árið 2028 en nú mun það ekki gerast fyrr en árið 2033 og munu afborganirnar standa yfir til 2050.
Danska úrvalsdeildarfélagið Viborg ákvað á hluthafafundi að fara í hlutafjáraukningu upp á 35 milljónir danskra króna, ca. 674 milljónir króna. Fjármagnið á að nýtast í uppbyggingu á æfingaraðstöðu hjá Viborg.
Dómur féll í máli Arnars Grétarssonar gegn KA í Landsrétti. KA tapaði málinu í héraðsdómi Norðurlands Eystra og var dæmt til þess að greiða Arnari 9.322.601 krónur með dráttarvöxtum. Deilurnar snerust um það hvort Arnar ætti rétt á 10% af Evrópugreiðslum KA sem það vann sér inn sumarið 2023. KA áfrýjaði málinu til Landsréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms.
LA Lakers eru í miðju söluferli um þessar mundir. Tveir þriðju hlutar eru í eigu Buss fjölskyldunnar sem hyggst selja 51% eignarhlut í félaginu til fjárfestingahóps sem er leiddur af Mark Walter. Hann á nú þegar 20% hlut í félaginu. Talið er að verðmiðinn á 51% eignarhlutnum séu 5,1 milljarðar dollarar sem myndi þýða að félagið í heild sinni er verðmetið á 10 milljarða dollara, ca. 1.213 milljarðar króna. Til samanburðar má nefna að Kerecis var selt á 180 milljarða króna árið 2023. Björn Berg gerði góð skil á þessum viðskiptum á síðunni sinni.
Ríkisendurskoðun Frakklands birti skýrslu í mánuðinum sem tók saman kostnaðinn við Ólympíuleikana í París. Heildarkostnaðurinn var ríflega sex milljarðar evra, ca. 852 milljarðar króna. Til samanburðar þá voru heildarútgjöld ríkissjóðs Íslands áætluð 1.552 milljarðar króna í fjárlögum fyrir árið 2025.
Franska félagið Lyon voru dæmdir niður í B-deild Frakklands sökum fjárhagsvandræða félagsins. Fjármálaeftirlit Franska knattspyrnusambandsins, DNCG, gaf Lyon viðvörun í nóvember síðastliðnum og sagði þeim að leysa úr 175 milljón evru skuld.