Júní 2025

Margt og mikið sem gerðist í júnímánuði, stiklum á stóru á öllu því helsta.
Roman Abramovich
Breska ríkisstjórnin hefur hótað því að kæra Roman Abramovich, fyrrverandi eiganda Chelsea, ef peningurinn sem hann fékk fyrir söluna rennur ekki til Úkraínu. Abramovich hefur sagt að hann vilji að peningurinn fari til allra fórnarlamba stríðsins en ekki einungis til Úkraínu. Peningurinn var frystur á breskum bankareikningi eftir söluna en aðilarnir hafa deilt um það hvernig þeim skuli vera útbýtt.




Crystal Palace
Crystal Palace tryggði sér þátttökurétt í Evrópudeildinni á næsta tímabili með því að sigra bikarkeppnina í Englandi. Þátttaka Crystal Palace gæti hins vegar verið vandkvæðum bundin. John Textor er einn af eigendum Crystal Palace en hann á 43% hlut í félaginu. Textor á hins vegar einnig 88% hlut í franska félaginu Lyon sem tryggði sér einnig þátttökurétt í Evrópudeildinni á næsta tímabili. Fjölklúbbaeignarhald er óheimilt í félagsliðakeppnum UEFA en ég hugsa nú að það verði hægt að fiffa einhverja hluti til svo að Crystal Palace geti tekið þátt. Svipuð staða var uppi hjá Manchester City og Girona í Meistaradeildinni á þarsíðasta tímabili svo dæmi sé tekið.


Allt leikur á reiðiskjálfa í Álaborg
Stuðningsmannasveit Álaborgar gaf út yfirlýsingu þar sem eigendur félagsins voru gagnrýndir. Eigendahópurinn keypti fyrst hlut í félaginu í mars 2023 og varð síðan meirihlutaeigandi í félaginu fyrir rúmlega ári síðan. Félagið féll niður úr efstu deild Danmerkur á nýafstöðnu tímabili og stuðningsmenn eru ekki ánægðir með stöðu mála hjá félaginu, í yfirlýsingunni var meðal annars talað um svikin loforð. Í kjölfarið tilkynnti stéttarfélagið 3F Aalborg að þeir myndu hætta sem styrktaraðilar félagsins ef núverandi eigendahópur myndi ekki víkja. Stéttarfélagið hefur verið styrktaraðili félagsins í meira en áratug. Skömmu síðar tilkynnti eigendahópurinn að þeir myndu hætta daglegum afskiptum af starfsemi félagsins og formaðurinn Jan Peters, einn af eigendunum, steig niður úr formannsstólnum.







PSG fjárfestir í Bitcoin
Viska Digital Assets, íslenskur rafmyntafjárfestingarsjóður birti áhugaverða grein þar sem fjallað var um fjárfestingar PSG í Bitcoin. Franska félagið heldur á 120 Bitcoins sem er metið á ca. 1,6 milljarða króna samkvæmt greininni. Vægast sagt áhugaverð þróun ef knattspyrnufélög eru farin að setja pening í rafmyntir.

Verðlaunafé á Opna franska meistaramótinu í tennis
Opna franska meistaramótið fór fram í júní. Carlos Alcaraz bar sigur úr býtum í einliðaleik karla og fékk 2,9 milljónir dollara í verðlaunafé, ca. 366 milljónir kr. Coco Gauff bar sigur úr býtum í einliðaleik kvenna og fékk einnig 2,9 milljónir dollara í verðlaunafé.




Ríkið kaupir íbúð af fyrrum knattspyrnumanni
Íslenska sendiráðið í Osló keypti íbúð á dögunum sem kemur til með að vera nýi sendiherrabústaður sendiráðsins. Seljandinn var fyrrverendi knattspyrnumaðurinn Stefan Strandberg. Hann keypti upprunalega þrjár íbúðir á 38 milljónir norskra króna árið 2020 en sameinaði þær í eina íbúð. Íslenska ríkið eyddi svo 60 milljónum norskra króna í íbúðina. Ágætis ávöxtun, en þó spurning hversu mikið Strandberg hefur eytt í framkvæmdir.

