Knattspyrnumenn sem óefnislegar eignir

Ég skilaði nýverið inn BSc ritgerðinni minni sem ber heitið Eignfærsla leikmannasamninga í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða. Viðfangsefni ritgerðarinnar er undanþága sem KSÍ fær frá reikningsskilareglum UEFA varðandi eignfærslu leikmannasamninga í ársreikningum. Á grundvelli undanþágunnar er svokallað stuðlakerfi notað sem leið til þess að verðmeta leikmenn í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða. Í ritgerðinni var leitast við að svara þremur rannsóknarspurningum:
- Hvaða áhrif hefur stuðlakerfið á ársreikninga íslenskra knattspyrnufélaga?
- Er stuðlakerfið í samræmi við lög og reglur?
- Er stuðlakerfið nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög?
Í stuttu máli þá hefur stuðlakerfið víðtæk áhrif á ársreikningana, en þó er fjárhæðirnar sjálfar óverulegar. Einnig var það niðurstaða mín að stuðlakerfið væri ekki í samræmi við ársreikningalögin né alþjóðlega reikningsskilastaðla. Loks tel ég að stuðlakerfið sé ekki nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög og að KSÍ þurfi að hætta með undanþáguna og aðlaga sig að reikningsskilareglum UEFA.
Næstu daga mun ég birta búta úr ritgerðinni.
Einkenni óefnislegra eigna í knattspyrnumönnum
Það eru þrjú atriði sem einkenna óefnislegar eignir. Þær eru aðgreinanlegar, ekki fjáreignir og ekki í hlutkenndu formi. Til þess að eign geti flokkast sem óefnisleg eign þarf hún að uppfylla nokkur skilyrði sem eru aðgreinanleiki, yfirráð og efnahagslegur framtíðarávinningur (IAS 38, 1998).
Til þess að óefnisleg eign sé aðgreinanleg þarf að vera hægt að kljúfa hana frá einingunni og selja hana eða leigja. Þá þurfa einnig að vera til staðar samningsbundinn réttindi um óefnislegu eignina (IAS 38, 1998). Þetta á við um knattspyrnumenn þar sem þeir eru aðskildir öðrum leikmönnum í félögum og það er hægt að selja eða leigja þá til annarra liða. Þá byggir samband knattspyrnumanns og félagsliðs á samningi sem aðilarnir gera sín á milli.
Til þess að eining hafi yfirráð yfir óefnislegri eign þarf hún að hafa ákvörðunarvald til þess að afla efnahagslegs framtíðarávinnings af þeim verðmætum sem liggja til grundvallar. Þá þarf hún einnig að geta takmarkað aðgengi annarra að þessum ávinningi. Félög geta vissulega takmarkað aðgengi annarra að leikmönnum, þar sem leikmannasamningur gerir liðum kleift að vera þeir einu sem mega spila tilteknum leikmanni. Hins vegar er möguleikinn á því að afla efnahagslegs framtíðarávinnings ekki eins auðsvarin fullyrðing og hin skilyrðin. Í IAS 38 staðlinum segir að í efnahagslegum framtíðarávinningi geti falist reglulegar tekjur af sölu á framleiðsluvörum eða þjónustu, sparnaður í kostnaði eða annar ávinningur sem stafar af notkun einingarinnar á eigninni (IAS 38, 1998). Félag getur bara selt leikmann einu sinni og því er ekki hægt að tala um að það séu reglulegar tekjur af sölu. Það væri þó hins vegar hægt að færa rök fyrir því að það felist ávinningur af notkun félags á leikmanni. Það er vegna þess að leikmaðurinn getur skilað frammistöðu inn á vellinum sem skila sér í auknum tekjum, hvort sem það sé verðlaunafé fyrir árangur, auknar auglýsingatekjur eða hvað eina annað.
Færsla keyptra knattspyrnumanna sem óefnislegar eignir
Til þess að heimilt sé að færa óefnislega eign í ársreikning þarf hún að uppfylla nokkur skilyrði. Í fyrsta lagi þarf að vera líklegt að væntanlegur efnahagslegur framtíðarávinningur sem tengist eigninni muni renna til einingarinnar, og vísast þá til umfjöllunarinnar í efnisgreininni hér á undan. Í öðru lagi þá þarf að vera hægt að meta kostnaðarverð eignarinnar með áreiðanlegum hætti (IAS 38, 1998). Þegar leikmenn eru keyptir af öðru félagi þá er kaupverðið einfaldur og áreiðanlegur máti til þess að meta kostnaðarverð óefnislegu eignarinnar. Það eru hins vegar ekki allir leikmenn keyptir. Félagslið geta eignast leikmenn á þrjá vegu, með því að kaupa þá, með því að fá samningslausa leikmenn til sín, og með því að spila uppöldum leikmönnum. Reikningsskilareglur UEFA eru einmitt á þann veg að einungis keyptir leikmenn eru eignfærðir (UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations, 2024) en reikningsskilareglur KSÍ eru hins vegar öðruvísi (Leyfisreglugerð KSÍ, 2024), meira um það síðar í ritgerðinni.
Uppaldir leikmenn sem óefnislegar eignir
Önnur tegund leikmanna eru þeir sem eru uppaldir hjá félaginu. Í IAS 38 staðlinum er gert ráð fyrir því að óefnislegar eignir geti líka myndast innan fyrirtækis. Það væri hægt að færa rök fyrir því að uppaldir leikmenn myndu falla undir óefnislega eign sem verður til vegna þróunarvinnu innan fyrirtækis. Til þess að gera það þarf óefnislega eignin að uppfylla sex skilyrði sem kveðið er á um í 57. gr. IAS 38 staðlinum.
Í fyrsta lagi þarf að vera tæknilega framkvæmanlegt að ljúka við óefnislegu eignina þannig að hún verði tiltæk til notkunar eða sölu (IAS 38, 1998). Hér væri hægt að segja að æfingaraðstaðan, þjálfarar og annað geri félögum kleift að „ljúka“ við óefnislegu eignina sem eru leikmenn í yngri flokka starfi félagsins.
Í öðru lagi þarf félagið að ætla sér að ljúka við óefnislegu eignina og nota hana eða selja (IAS 38, 1998). Þetta á við þar sem félög gefa uppöldum leikmönnum gjarnan tækifæri með aðalliðinu eða selja þá til annars liðs.
Í þriðja lagi þarf félagið að hafa getu til þess að nota eða selja óefnislegu eignina (IAS 38, 1998). Þetta á við þar sem félagið gefur leikmönnum samning sem gerir þeim kleift að nota eða selja leikmanninn.
Í fjórða lagi þarf félagið að sýna hvernig líklegur efnahagslegur framtíðarávinningur myndast af óefnislegu eigninni (IAS 38, 1998). Þetta er erfitt að meta þar sem þetta snýr í grunninn að getu og hæfileikum leikmannsins. Góður leikmaður getur klárlega skapað efnahagslegan framtíðarávinning en það er nær ómögulegt að spá fyrir því um hvort það muni rætast úr leikmanninum eins og vonir eru gerðar til hans. Ólíklegustu leikmennirnir geta náð langt og líklegustu leikmennirnir geta lent í erfiðum meiðslum og hætt snemma í fótbolta. Það er því ekki hægt að fullyrða að þessu skilyrði sé náð.
Í fimmta lagi þurfa að vera fyrir hendi næg tæknileg, fjárhagsleg og önnur verðmæti til þess að ljúka þróuninni og til að nota eða selja óefnislegu eignina (IAS 38, 1998). Í félögum eru til staðar innviðir á borð við fótboltavelli og það eru þjálfarar til staðar. Það eru vissulega ekki ótakmörkuð pláss fyrir leikmenn í yngri flokkum en það er ekkert stórmál að bæta við fleiri þjálfurum eða nýta aðra velli til þess að þjálfa leikmenn og því er þessu skilyrði náð.
Í sjötta lagi þá þarf að vera hægt að meta útgjöldin, sem rekja má til þróunar á óefnislegu eigninni, með áreiðanlegum hætti (IAS 38, 1998). Hér er hægt að nota launakostnað þjálfara, kostnað við æfingarbúnað, kostnað við notkun valla og fleira. Það segir hins vegar í c. lið 6. gr. í J viðauka leyfisreglugerðar KSÍ að það megi ekki eignfæra kostnað í tengslum við yngri flokka starf (Leyfisreglugerð KSÍ, 2024). Þessi grein byggir á a. lið 4. mgr. 3. gr. í G viðauka leyfisreglugerðar UEFA (UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations, 2024). Það þyrfti því að breyta þessum greinum í leyfisreglugerðum KSÍ og UEFA, ef ætlunin væri að meta uppalinn leikmann út frá útgjöldum í yngri flokka starfi.
Uppaldir leikmenn virðast því uppfylla öll skilyrðin nema fjórða skilyrðið og sjötta skilyrðið væri háð breytingum á leyfisreglugerðum KSÍ og UEFA. Í 57. gr. IAS 38 staðalsins stendur að það þurfi að uppfylla öll skilyrðin til þess að það sé hægt að eignfæra óefnislega eign sem verður til vegna þróunarvinnu. Þar af leiðandi geta uppaldir leikmenn, samkvæmt skilyrðum IAS 38 staðalsins, ekki verið eignfærðir í ársreikningum knattspyrnuliða.
Leikmenn á frjálsri sölu sem óefnislegar eignir
Þriðja tegundin af leikmönnum eru þeir sem koma til félagsins á frjálsri sölu eftir að hafa verið samningslausir. Í 21. gr. IAS 38 staðalsins segir að færa skuli óefnislega eign ef hún uppfyllir tvö skilyrði. Annars vegar að líklegt sé að væntanlegur efnahagslegur framtíðarávinningur muni renna til félagsins. Hins vegar að unnt sé að meta kostnaðarverð með áreiðanlegum hætti (IAS 38, 1998). Þegar ekkert eiginlegt kaupverð liggur að baki félagaskiptum leikmanns þá er áreiðanlegasta kostnaðarverðið, einfaldlega núll krónur. Þar af leiðandi ættu leikmenn sem koma til félags á frjálsri sölu ekki að vera eignfærðir á neina aðra fjárhæð en núll krónur í ársreikningum knattspyrnuliða.