Manchester United tapaði 1,1 milljarði króna

Manchester United tapaði 1,1 milljarði króna

Manchester United er skráð í kauphöllina í New York og þarf því að birta ársfjórðungsuppgjör. Uppgjörið fyrir fyrsta ársfjórðung tímabilsins var birt síðasta fimmtudag.

Greinin var einnig birt á fotbolti.net



Rekstrartekjur

Sundurliðun rekstrartekna Manchester United á fyrsta ársfjórðungi síðustu þrjú árin.

Rekstrartekjur Manchester United á fyrsta ársfjórðungnum voru 140,3 milljónir pund, tæplega 23,6 milljarðar króna. Hátt í tveir þriðjungar af þeim tekjum komu frá auglýsingatekjum (e. commercial revenue). Þessi tekjuliður lækkaði um 1,3% á milli fyrsta ársfjórðungs 2024/25 og fyrsta ársfjórðungs 2025/26. Í skýringum sem má finna í árshlutauppgjöri Manchester United er þessum tekjulið skipt niður í tvo liði. Annars vegar tekjur af samstörfum (e. sponsorship revenue) og hins vegar smásölutekjur (e. retail, merchandising, apparel & product licensing revenue). Tekjur af samstörfum voru 47 milljónir punda, eða 7,9 milljarðar króna, og lækkuðu um rúmlega 9,3% á milli ára. Ástæðan fyrir þessari lækkun er breyting á þeim fyrirtækjum sem Manchester United er í samstarfi við, samkvæmt skýringum í árshlutauppgjörinu. Smásölutekjurnar jukust hins vegar um 11% á milli ára og stóðu 37,2 milljónum punda, rúmlega 6,3 milljarðar króna, á fyrsta ársfjórðungnum í ár.

Úr skýringum í árshlutauppgjöri Manchester United.

Tekjur af útsendingaréttindum (e. broadcasting revenue) lækkaðu um 1,4 milljónir punda, ríflega 235,5 milljónir króna, á milli ára. Það er sökum þess að Manchester United tekur ekki þátt í félagsliðakeppnum UEFA í ár. Þessi tekjuliður stóð í 39,3 milljónum punda, rúmlega 6,6 milljarðar króna, fyrir tveimur tímabilum síðan þegar liðið spilaði í Meistaradeild Evrópu en lækkaði niður í 31,3 milljónir punda í fyrra þegar liðið spilaði í Evrópudeildinni. Nú stendur þessi liður í 29,9 milljónum punda, eða tæplega 5,0 milljarðar króna.

Leikdagstekjurnar lækkuðu örlítið á milli ára og stóðu í 26,2 milljónum punda, ríflega 4,4 milljarðar króna. Á fyrsta ársfjórðungnum í ár spilaði Manchester United einungis þrjá heimaleiki í ensku úrvalsdeildinni en á sama ársfjórðungi í fyrra spilaði liðið þrjá heimaleiki í ensku úrvalsdeildinni, einn heimaleik í Evrópudeildinni og einn heimaleik í deildarbikarnum.

Söluhagnaður óefnislegra eigna Manchester United á fyrsta ársfjórðungi síðustu þrjú árin.

Einn áhugaverður liður í rekstrarreikningnum er söluhagnaður óefnislegra eigna. Þetta er í raun söluhagnaður leikmanna, þar sem leikmenn flokkast sem óefnislegar eignir í ársreikningum. Í sumar seldi Manchester United Alejandro Garnacho til Chelsea og Antony til Real Betis. Garnacho telst sem uppalinn leikmaður hjá Manchester United og því ætti allt söluverðið hans að teljast sem söluhagnaður. Chelsea keypti hann á 40 milljónir punda samkvæmt fjölmiðlum og því ætti öll sú fjárhæð að vera söluhagnaður. Antony var keyptur á tæpar 82 milljónir punda til Manchester United sumarið 2022 og var svo seldur í sumar á tæpar 21 milljón punda. Hann gerði fimm ára samning við Manchester United á sínum tíma, sem þýðir að kaupverðið hans hefur verið afskrifað um tæpar 16,4 milljónir punda á ári. Bókfært virði hans hefur því sennilega verið eitthvað í kringum 32,8 milljónir punda í sumar og því ætti söluhagnaður hans að vera í kringum 12 milljónir punda. Þessar tölur stemma þó ekki við uppgefinn söluhagnað í ársfjórðungsuppgjöri Manchester United. Það er sennilegt að kaupverðin sem fjölmiðlar halda fram séu röng. Mögulega var Garnacho keyptur til Chelsea á minna en 40 milljónir punda, hugsanlega var Antony keyptur á minna en 82 milljónir punda til Manchester United eða jafnvel var hann seldur til Real Betis á meira en 21 milljón punda.



Rekstrargjöld

Rekstrarreikningur Manchester United á fyrsta ársfjórðungi síðustu þriggja ára.

Rekstrargjöld Manchester United voru 172,4 milljónir punda, tæplega 29,0 milljarðar króna, á fyrsta ársfjórðungnum í ár en þær lækkuðu um tæplega 13,2 milljónir punda á milli ára. Stærsti hluti rekstrargjaldanna eru laun og launatengd gjöld en þau námu 73,6 milljónum punda, ríflega 12,4 milljarðar punda, á fyrsta ársfjórðungnum. Launakostnaður félagsins lækkaði um 8,2% á milli ára og er núna 16,7 milljónum punda, rúmlega 2,8 milljarðar króna, lægri en hann var fyrir tveimur árum síðan. Það eru tveir hlutir sem skýra þessa lækkun hjá Manchester United. Annars vegar hafa verið í gangi hópuppsagnir frá því að Jim Ratcliffe eignaðist hlut í félaginu, rúmlega 450 manns hefur verið sagt upp. Hins vegar er Manchester United ekki í neinni félagsliðakeppni UEFA í ár, það er sennilegt að flestir ef ekki allir leikmenn eru með eitthvað ákvæði í samningunum sínum sem lækkar launin þeirra í slíkum tilvikum.

Launakostnaður

Launakostnaður og launahlutfall Manchester United á fyrsta ársfjórðungi síðustu þrjú árin.

Launahlutfallið hefur síðustu þrjú árin verið að meðaltali 55,3% af rekstrartekjum félagsins og stendur nú í 52,5%. Á dögunum samþykkti enska úrvalsdeildin að innleiða nýjar fjárhagsreglur sem munu leysa af hólmi gömlu hagnaðar- og sjálfbærnireglurnar (e. profit and sustainability rules, PSR). Gömlu fjárhagsreglurnar kváðu á um að félag mætti vera rekið með tapi að hámarki 105 milljónum punda, hátt í 17,7 milljarðar króna, á þriggja ára tímabili. Nýju fjárhagsreglurnar, leikmannahópskostnaðurhlutfallið (e. squad cost ratio), kveða á um að hlutfall leikmannahópskostnaður hjá félögum megi ekki vera hærra en 85% af tekjum félagsins. Undir leikmannahópskostnað falla útgjöld eins og laun leikmanna og þjálfara, greiðslur til umboðsmanna og afskriftir kaupverðs leikmanna. UEFA er með sömu fjárhagsreglur fyrir félagsliðakeppnir sínar, með einni breytingu, hlutfall leikmannahópskostnaðar af tekjum félagsins má ekki vera hærra en 70% þar. Manchester United þarf því ekki að hafa áhyggjur af þessum reglum að svo stöddu, sér í lagi ef félagið kemst aftur inn í félagsliðakeppni UEFA á næsta tímabili. Þá mun félagið fá inn meiri tekjur og þar af leiðandi ætti leikmannahópskostnaðarhlutfallið þeirra að lækka, að því gefnu að laun leikmanna og þjálfara hækki ekki umfram tekjuhækkunina.

Í skýringum árshlutauppgjörsins er bent á að upphæð fjármagnsgjalda var töluvert umfram fjármagnstekjur. Fjármagnsgjöldin á fyrsta ársfjórðungnum námu 22,7 milljónum punda, ríflega 3,8 milljarðar króna, en fjármagnstekjurnar voru 1,2 milljónir punda, tæplega 202,1 milljón króna. Tekið er fram að þetta skýrist af óhagstæðum gengissveiflum vegna lána í dollurum sem voru ekki með gengisvarnir.

Úr skýringum í árshlutauppgjöri Manchester United.

Afkoma

Afkoma Manchester United á fyrsta ársfjórðungi síðustu þrjú árin.

Rekstrarafkoman á fyrsta ársfjórðungnum í ár var tæplega 13 milljónir punda sem er hátt í 20 milljón punda, rúmlega 3,4 milljarðar króna, viðsnúningur frá árinu áður þegar rekstrarafkoman var neikvæð upp á tæpar 7 milljónir punda. Fjármagnsgjöldin voru þó umtalsvert meiri en fjármagnstekjurnar í ár, annað en í fyrra, og þar af leiðandi var afkoma Manchester United neikvæð upp á 8,5 milljónir punda, ríflega 1,4 milljarðar króna, fyrir tekjuskatt. Manchester United gat þó nýtt sér tekjuskattseign og því var heildarafkoma fyrsta ársfjórðungsins neikvæð upp á 6,6 milljónir punda, rúmlega 1,1 milljarður króna. Sú afkoma er lakari en í fyrra, en þó skárri en heildarafkoman á fyrsta ársfjórðungnum 2023.

Áhrifaþættir afkomu Manchester United á fyrsta ársfjórðungi í ár.

Eignir

Skipting fastafjármuna og veltufjármuna Manchester United á fyrsta ársfjórðungi síðustu þrjú árin.

Eignum Manchester United er skipt upp í fjölmarga liði og óþarfi er að fara yfir þá alla. Stærsti hluta eignanna eru fastafjármunir upp á tæpa 1,5 milljarða punda, rúmlega 252,6 milljarðar króna, en 71,5% af því eru óefnislegar eignir sem eru að langstærstu leyti bókfært verð leikmanna. Þá var arðsemi heildareigna -0,38% sem er frekar eðlilegt hjá fótboltaliði en klúbbur af sömu stærðargráðu gæti þó eflaust gert betur í þessum efnum. Real Madrid, svo dæmi sé tekið, er með arðsemi heildareigna upp á 0,8%

Arðsemi eigin fjár og arðsemi eigna Manchester United á fyrsta ársfjórðungi síðustu þrjú árin.

Veltufjárhlutfall Manchester United var 30,9% á fyrsta ársfjórðungnum en hefur að meðaltali verið 32,8% á fyrsta ársfjórðungnum síðustu þrjú tímabil. Veltufjármunir Manchester United voru 256,3 milljónir punda, rúmlega 43,2 milljarðar króna, en á sama tíma voru skammtímaskuldir 829,3 milljónir punda, hátt í 139,7 milljarðar króna. Félagið gæti því ekki greitt upp allar skammtímaskuldirnar á svipstundu, ef svo kæmi til. Félag af þeirri stærðargráðu sem Manchester United er ætti þó ekki í miklum vandræðum með það að sækja sér fjármagn til þess að mæta þessum skammtímaskuldum. Lausafjárhlutfallið þeirra er þá aðeins lægra en veltufjárhlutfallið. Lausafjárhlutfallið var 27,8% á fyrsta ársfjórðungnum en hefur að meðaltali verið 28,5% á fyrsta ársfjórðungnum síðustu þrjú tímabil.

Handbært fé Manchester United er töluvert lægra núna en það var á sama tíma fyrir ári síðan. Undir lok fyrsta ársfjórðungsins á þessu tímabili stendur það í 80,5 milljónum punda, rúmlega 13,6 milljarðar króna, en fyrir ári síðan var það 149,6 milljónir punda. Ef litið er þó á handbært fé í upphafi þessa ársfjórðungs þá var það 86,1 milljónir punda, því hefur það lækkað um tæplega 5,6 milljónir punda.

Eignir Manchester United á fyrsta ársfjórðungnum síðustu þrjú tímabil.

Eigið fé

Eigið fé og skuldir Manchester United á fyrsta ársfjórðungnum síðustu þrjú tímabil.

Áhugaverðasti liðurinn meðal eigin fjár er yfirverðsreikningur hlutafjár. Þar sjást klárlega fingraför Jim Ratcliffe. Tímabilið 2023/24 dælir hann tæplega 159 milljónum punda, 26,8 milljarðar króna, inn í félagið og aftur á síðasta tímabili setti hann ríflega 80 milljónir punda, 13,5 milljarðar króna, inn í félagið. Samanlagt eru þetta tæplega 300 milljónir dollara. Það var hluti af samkomulagi hans við Glazer fjölskylduna að hann myndi setja 300 milljónir dollara inn í félagið þegar hann keypti 25% hlut í því á 1,3 milljónir dollara fyrir rúmlega tveimur árum síðan.

Ýmsar kennitölur Manchester United á fyrsta ársfjórðungi síðustu þrjú árin.

Skuldir

Langtímaskuldir og skammtímaskuldir Manchester United á fyrsta ársfjórðungnum síðustu þrjú tímabil.

Skuldir Manchester United námu 1,5 milljörðum punda, ríflega 252,7 milljarðar króna, á fyrsta ársfjórðungnum á þessu tímabili. Skiptingin á milli langtímaskulda og skammtímaskulda er nokkuð jöfn en skammtímaskuldirnar eru aðeins hærri og samsvara 53,8% af heildarskuldum félagsins. Skammtímaskuldirnar eru að mestu leyti samningsskuldbindingar, viðskiptaskuldir og aðrar skammtímaskuldir, og lántökur. Út frá sjóðstreyminu í árshlutaupgjörinu sjáum við að félagið dró á lánalínu sína (e. revolving credit facility) fyrir 105 milljónir punda, tæplega 17,7 milljarðar króna. Það var líklega til þess að geta greitt kaupverð leikmanna í sumar, en mögulega var það einnig notað í öðrum tilgangi. Í skýringum ársuppgjörsins fyrir tímabilið 2024/25 var tekið fram hvenær dregið var á lánalínurnar í fyrsta ársfjórðungnum 2025/26.

Fyrst voru dregnar 30 milljónir punda 7. júlí, nokkrum dögum áður hafði Manchester United keypt Matheus Cunha frá Wolverhampton Wanderers. Næst voru dregnar 30 milljónir punda þann 30. júlí, nokkrum dögum áður hafði Manchester United keypt Bryan Mbeumo frá Brentford. Síðan voru dregnar 20 milljónir punda þann 11. ágúst, nokkrum dögum áður hafði Manchester United keypt Benjamin Sesko frá RB Leipzig. Loks voru dregnar 25 milljónir punda þann 11. september, nokkrum dögum áður hafði Senne Lammens verið keyptur frá Royal Antwerp.

Samkvæmt árshlutauppgjöri Manchester United hefur félagið dregið á lánalínurnar fyrir 265 milljónir punda en með áföllnum vöxtum stendur sú fjárhæð í 268 milljónum punda. Í ársuppgjöri Manchester United fyrir 2024/25 tímabilið segir í skýringum að lánalínurnar voru endurnýjaðar þann 10. júlí síðastliðinn. Endurnýjunin fól í sér að lánalínan gildir nú til 31. desember 2029 í stað 25. júní 2027. Þá hefur heimildin einnig verið hækkuð úr 300 milljónum punda í 350 milljónir punda, tæplega 59 milljarðar króna.

Úr skýringum í ársreikningi Manchester United fyrir tímabilið 2024/25.

Skuldahlutfall Manchester United er verulega hátt en á fyrsta ársfjórðungnum var það 89,2%. Síðustu þrjú tímabil hefur skuldahlutfallið að meðaltali verið 91,8% á fyrsta ársfjórðungnum. Langtímaskuldahlutfallið stóð í 41,2% á fyrsta ársfjórðungnum á þessu tímabili en hefur að meðaltali verið 44,6% á fyrsta ársfjórðungi síðustu þriggja tímabila. Hlutfallið hefur lækkað þónokkuð frá því sem var á fyrsta ársfjórðungi 2023/24 tímabilsins þegar það var 49,3%.



Samfélagsmiðlar

facebook.com/utanvallar

linkedin.com/company/utanvallar

instagram.com/utanvallar

tiktok.com/@utanvallar

x.com/utanvallar