Niðurstöður og lokaorð

Niðurstöður og lokaorð

Ég skilaði nýverið inn BSc ritgerðinni minni sem ber heitið Eignfærsla leikmannasamninga í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða. Viðfangsefni ritgerðarinnar er undanþága sem KSÍ fær frá reikningsskilareglum UEFA varðandi eignfærslu leikmannasamninga í ársreikningum. Á grundvelli undanþágunnar er svokallað stuðlakerfi notað sem leið til þess að verðmeta leikmenn í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða. Í ritgerðinni var leitast við að svara þremur rannsóknarspurningum:

  1. Hvaða áhrif hefur stuðlakerfið á ársreikninga íslenskra knattspyrnufélaga?
  2. Er stuðlakerfið í samræmi við lög og reglur?
  3. Er stuðlakerfið nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög?

Í stuttu máli þá hefur stuðlakerfið víðtæk áhrif á ársreikningana, en þó er fjárhæðirnar sjálfar óverulegar. Einnig var það niðurstaða mín að stuðlakerfið væri ekki í samræmi við ársreikningalögin né alþjóðlega reikningsskilastaðla. Loks tel ég að stuðlakerfið sé ekki nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög og að KSÍ þurfi að hætta með undanþáguna og aðlaga sig að reikningsskilareglum UEFA.

Næstu daga mun ég birta búta úr ritgerðinni.


Niðurstöður

Í upphafi ritgerðarinnar voru bornar fram þrjár rannsóknarspurningar. Sú fyrsta fjallaði um hvaða áhrif stuðlakerfið hefur á ársreikninga íslenskra knattspyrnufélaga. Líkt og fjallað var um í kafla sjö þá hefur stuðlakerfið margvísleg áhrif á ársreikninga íslenskra knattspyrnufélaga. Stuðlakerfið leiðir til þess að eignir félagsins hækka, í samanburði við það sem þær væru samkvæmt reikningsskilareglum UEFA, þar sem uppaldir leikmenn og leikmenn sem koma á frjálsri sölu eru eignfærðir í ársreikningum. Þessi hækkun sem leiðir af stuðlakerfinu er þó óveruleg í stóra samhenginu. Þá hefur stuðlakerfið áhrif á eigið fé íslenskra knattspyrnufélaga þar sem endurmat stuðla er fært í gegnum sérstakan endurmatsreikning meðal eigin fjár. Það þýðir að þegar leikmaður færist upp eða niður um stuðul, eða þegar nýir leikmenn fá samning hjá félaginu þá hefur það áhrif á eigið fé. Stuðlakerfið hefur einnig áhrif á það hvernig afskriftum keyptra leikmanna er háttað. Samkvæmt reikningsskilareglum UEFA er allt kaupverðið afskrifað línulega en samkvæmt reikningsskilareglum KSÍ er mismunur kaupverðs og stuðuls afskrifað línulega. Þetta breytir gjaldfærðum afskriftum og þar af leiðandi afkomu ársins. Stuðlakerfið hefur sömuleiðis áhrif á tekjufærðan söluhagnað og gjaldfært sölutap leikmanna. Það er vegna þess að stuðlarnir gefa leikmönnum annað bókfært verð en reikningsskilareglur UEFA myndu gefa þeim. Allar þessar stærðir sem stuðlakerfið hefur áhrif á hefur þá sömuleiðis áhrif á ýmsar kennitölur sem eru notaðar til þess að greina ársreikninga. Þetta eru kennitölur eins og eiginfjárhlutfall, skuldahlutfall og arðsemi eigin fjár.

Önnur rannsóknarspurningin fjallaði um það hvort stuðlakerfið væri í samræmi við lög og reglur. Líkt og kom fram í kafla 8.3 þá er stuðlakerfið ekki í fullu samræmi við fjórar mismunandi greinar í ársl. og tvær mismunandi greinar í IAS 38 reikningsskilastaðlinum. Þær greinar í ársl. sem stuðlakerfið stangast á við eru 1. mgr. 5. gr., 2. mgr. 14. gr., 1. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 29. gr. ársl. Þær greinar í IAS 38 reikningsskilastaðlinum sem stuðlakerfið er ekki í fullu samræmi við eru b. liður 21. gr. og d. liður 57. gr. IAS 38 reikningsskilastaðalsins. Af öllu framangreindu er því ljóst að stuðlakerfið er ekki í samræmi við lög og reglur.

Þriðja rannsóknarspurningin fjallaði um það hvort stuðlakerfið væri nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög. Eins og fram hefur komið í ritgerðinni þá er stuðlakerfið einfaldlega til trafala í íslenskri knattspyrnu. Upprunalegi tilgangur stuðlakerfisins er ekki til staðar lengur en samt sem áður fær það að lifa. Forráðamenn félaga sem höfundur ræddi við sögðust ekki vera hrifnir af stuðlakerfinu. Þeim þótti það vera tímasóun að handvinna stuðla allra leikmanna og setja það upp í leikmannatöflu fyrir einhverja hundrað þúsund kalla. Oft á tíðum finnst þeim einnig stuðlakerfið, og eignfærsla leikmannasamninga út frá því, vera óljóst og ruglingslegt. Endurskoðendur voru á sama máli og forráðamenn félaga. Þeir skyldu ekki nytsemi stuðlakerfisins fyrir félögin. Líkt og hefur verið sýnt fram á í ritgerðinni þá gerir stuðlakerfið lítið fyrir félögin. Eignirnar hækka um nokkrar milljónir en þessi hækkun endurspeglar ekkert raunverulegt virði þessara verðmæta. Höfundur spurði alla viðmælendur sína hvort þeir myndu syrgja stuðlakerfið ef því væri hent út um gluggann. Enginn svaraði spurningunni játandi. Af öllu framangreindu er ljóst að stuðlakerfið er ekki nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög.

Lokaorð

Í þessari ritgerð hefur verið sýnt fram á það að stuðlakerfið hefur margvísleg áhrif á ársreikninga íslenskra knattspyrnuliða. Jafnframt hefur verið sýnt fram á það að stuðlakerfið sé í raun og veru í andstöðu við fjögur ákvæði í lögum um ársreikninga og tveimur ákvæðum í IAS 38 reikningsskilastaðlinum. Að lokum hefur höfundur ekki fundið nein rök fyrir því að halda í stuðlakerfið og núverandi reikningsskilareglur KSÍ. Tilgangur stuðlakerfisins í upphafi var skiljanlegur en sá tilgangur er ekki til staðar lengur. Lengi lifir í gömlum glæðum en nú er kominn tími til þess að slökkva í þeim. KSÍ ætti ekki að endurnýja undanþáguna þegar hún rennur út eftir tímabilið 2025/26, það eru engin rök fyrir því. Nú er kominn tími til þess að aðlaga reikningsskilareglur KSÍ að reikningsskilareglum UEFA.



Samfélagsmiðlar

facebook.com/utanvallar

linkedin.com/company/utanvallar

instagram.com/utanvallar

tiktok.com/@utanvallar

x.com/utanvallar