Reikningsskilareglur KSÍ

Reikningsskilareglur KSÍ

Ég skilaði nýverið inn BSc ritgerðinni minni sem ber heitið Eignfærsla leikmannasamninga í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða. Viðfangsefni ritgerðarinnar er undanþága sem KSÍ fær frá reikningsskilareglum UEFA varðandi eignfærslu leikmannasamninga í ársreikningum. Á grundvelli undanþágunnar er svokallað stuðlakerfi notað sem leið til þess að verðmeta leikmenn í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða. Í ritgerðinni var leitast við að svara þremur rannsóknarspurningum:

  1. Hvaða áhrif hefur stuðlakerfið á ársreikninga íslenskra knattspyrnufélaga?
  2. Er stuðlakerfið í samræmi við lög og reglur?
  3. Er stuðlakerfið nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög?

Í stuttu máli þá hefur stuðlakerfið víðtæk áhrif á ársreikningana, en þó er fjárhæðirnar sjálfar óverulegar. Einnig var það niðurstaða mín að stuðlakerfið væri ekki í samræmi við ársreikningalögin né alþjóðlega reikningsskilastaðla. Loks tel ég að stuðlakerfið sé ekki nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög og að KSÍ þurfi að hætta með undanþáguna og aðlaga sig að reikningsskilareglum UEFA.

Næstu daga mun birta búta úr ritgerðinni en fyrir þá sem vilja forskot á sæluna þá er hægt að lesa alla ritgerðina á Skemmunni.


Undanþága frá leyfisreglugerð UEFA

KSÍ er með undanþágu frá þeim reikningsskilareglum sem kveðið er á um í viðauka G.3 í leyfisreglugerð UEFA. Undanþágan var síðast veitt undir lok árs 2022 og gildir hún í þrjú keppnistímabil, þ.e. til og með tímabilinu 2025/26. UEFA veitir KSÍ þessa undanþága með þremur skilyrðum (Viðmælandi A, munnleg heimild, 19. febrúar 2025).

  1. Undanþágan er gild að því gefnu að ekkert félagslið á Íslandi heyri undir þær stöðugleikakröfur sem eru skilgreindar í 80. gr. leyfisreglugerðar UEFA
  2. Endurmat á virði leikmanns sem er gert í samræmi við stuðlakerfi KSÍ skal færa á sérstakan endurmatsreikning meðal eigin fjár í efnahagsreikningi leyfisumsækjanda og síðan fært yfir á rekstrarreikning þegar skráning leikmanns færist yfir á annað félagslið.
  3. Fjárhæðirnar sem falla undir endurmatsreikninginn mega ekki vera teknar með í mati á því hvort leyfisumsækjandi uppfylli eiginfjárkröfur 70. gr. leyfisreglugerðar UEFA.

Stöðugleikakröfur 80. gr. leyfisreglugerðar UEFA

Í 80. gr. leyfisreglugerðar UEFA er fjallað um stöðugleikakröfur (e. stability requirements). Þar er kveðið á um það að félagslið þurfi uppfylla ákveðnar stöðugleikakröfur til þess að taka þátt í félagsliðakeppni UEFA. Í stuttu máli snúast þessar kröfur um uppsafnaða afkomu á þriggja ára tímabili. Samkvæmt 2. mgr. 88. gr. leyfisreglugerðar UEFA má félag í mesta lagi skila fimm milljón evra tapi yfir þriggja ára tímabil. Það eru hins vegar leyfileg frávik frá þessari upphæð. Uppsafnað tap má vera allt að 60 milljónir evra ef það bil er brúað með hlutafjáraukningu, fjárframlögum, eftirgjöf skulda eða tekjum sem eru hærri en gangvirði þess hlutar eða þjónustu sem sýslað er með. Það þurfa hins vegar ekki öll félög að uppfylla þessar stöðugleikakröfur. Ef launakostnaður hjá félagi hefur verið undir fimm milljónum evra síðastliðinn tvö fjárhagsár þá er félagið undanþegið stöðugleikakröfum 80. gr. leyfisreglugerðar UEFA (UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations, 2024). Íslensk félagslið eru langt undir þessu viðmiði. Breiðablik er það félag sem er næst þessu viðmiði en gjaldaliðurinn þjálfun, leikmenn og yfirstjórn braut fjögur milljón evru múrinn árið 2023 þegar hann var 611.962.986 krónur (Breiðablik, 2023), eða rétt yfir fjórar milljónir evra miðað við gengið á evrunni í árslok 2023 (Opinber gengisskráning, e.d.). Sá gjaldaliður inniheldur hins vegar fleiri gjöld en bara laun og því var starfsmannakostnaðurinn þeirra líklega undir fjórum milljónum evra árið 2023.

Eiginfjárkröfur 70. gr. leyfisreglugerðar UEFA

Í 70. gr. leyfisreglugerðar UEFA er fjallað um eiginfjárkröfur (e. net equity rule). Þar er kveðið á um það að eigið fé félags skuli vera annað hvort jákvætt eða hafa batnað um tíundahluta frá síðasta ársreikningi. Það er engin undantekning frá þessari reglu fyrir lítil félög eins og í stöðugleikakröfunum (UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations, 2024). KSÍ var hins vegar með svipaða reglu til staðar hjá sér á undan UEFA og því þekkja íslensk félög þessa reglu vel (Viðmælandi A, munnleg heimild, 19. febrúar 2025).

Leyfisreglugerð KSÍ

Leyfisreglugerð KSÍ byggir á leyfisreglugerð UEFA. Til þess að félagslið geti tekið þátt í efstu tveimur deildum Íslandsmóts karla, efstu deild Íslandsmóts kvenna og Evrópukeppnum félagsliða þurfa félög að hafa þátttökuleyfi. Þetta þátttökuleyfi er veitt að því gefnu að félagsliðið uppfylli margskonar skilyrði og kröfur sem kveðið er á um í leyfisreglugerð KSÍ. Það er nánast allt sem viðkemur rekstri knattspyrnuliðs í þessari leyfisreglugerð. Allt frá tilmælum um yngri flokka starfið yfir í reikningsskilakröfur (Leyfisreglugerð KSÍ, 2024).

Í viðauka IV í leyfisreglugerð KSÍ er fjallað um lágmarkskröfur um innihald og reikningsskilareglur vegna undirbúnings ársreiknings. Í viðauka J í viðauka IV er kveðið á um reikningsskilareglur vegna kostnaðar við varanlega félagaskiptaskráningu leikmanns (Leyfisreglugerð KSÍ, 2024).

Í b. lið 1. gr. viðauka J í viðauka IV í leyfisreglugerðinni segir að sé leikmaður keyptur á hærra verði en stuðull segir til um skal leikmaðurinn metinn á kaupverði. Jafnframt segir í 2. gr. viðauka J í viðauka IV að samningsbundnir leikmenn sem hafa verið aldir upp hjá félaginu og ekki komið með félagaskiptum skulu eignfærðir samkvæmt mati stuðuls leikmanns (Leyfisreglugerð KSÍ, 2024).

Stuðlakerfi KSÍ

Stuðlakerfið er notað til þess að meta verðmæti leikmanna fyrir leyfiskerfi KSÍ. Fyrirkomulag stuðlakerfisins er útskýrt í viðauka II í reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga. Leikmenn fá stuðulinn 1, 3, 5, 7 eða 10 út frá sjö þáttum. Þessir þættir eru aldur, fjöldi A-landsleikja, fjöldi U-21 landsleikja, fjöldi U-19 landsleikja, fjölda U-17 landsleikja, leikir í 0. deild og leikir í 1. deild. Til 0. deildar teljast leikir í efstu deild, aðalkeppni bikarkeppninnar og leikir í Evrópukeppnum félagsliða. Til 1. deildar teljast leikir í næstefstu deild. Þessar upplýsingar eru fylltar út í excel skjal fyrir hvern og einn leikmann í liðinu og út kemur stuðull á bilinu 1-10, eins og fyrr segir. Stuðullinn er síðan margfaldaður með 100.000 krónum og er verðgildi leikmanna því einhvers staðar á bilinu 100.000-1.000.000 krónur (Reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga, 2024).

Hér fyrir neðan má sjá dæmi um hvaða skilyrði leikmaður þarf að uppfylla til þess að fá tiltekinn stuðull.