Reikningsskilareglur UEFA

Ég skilaði nýverið inn BSc ritgerðinni minni sem ber heitið Eignfærsla leikmannasamninga í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða. Viðfangsefni ritgerðarinnar er undanþága sem KSÍ fær frá reikningsskilareglum UEFA varðandi eignfærslu leikmannasamninga í ársreikningum. Á grundvelli undanþágunnar er svokallað stuðlakerfi notað sem leið til þess að verðmeta leikmenn í ársreikningum íslenskra knattspyrnuliða. Í ritgerðinni var leitast við að svara þremur rannsóknarspurningum:
- Hvaða áhrif hefur stuðlakerfið á ársreikninga íslenskra knattspyrnufélaga?
- Er stuðlakerfið í samræmi við lög og reglur?
- Er stuðlakerfið nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög?
Í stuttu máli þá hefur stuðlakerfið víðtæk áhrif á ársreikningana, en þó er fjárhæðirnar sjálfar óverulegar. Einnig var það niðurstaða mín að stuðlakerfið væri ekki í samræmi við ársreikningalögin né alþjóðlega reikningsskilastaðla. Loks tel ég að stuðlakerfið sé ekki nauðsynlegt fyrir íslensk knattspyrnufélög og að KSÍ þurfi að hætta með undanþáguna og aðlaga sig að reikningsskilareglum UEFA.
Næstu daga mun ég birta búta úr ritgerðinni.
Tilurð og þróun
Fyrsta leyfisreglugerð UEFA var gefin út árið 2002 og hét hún UEFA Club Licensing Manual – Version 1.0. Markmiðið með leyfisreglugerðinni var að tryggja samræmi milli knattspyrnuliða. Í henni var meðal annars að finna reikningsskilareglur varðandi eignfærslu leikmannasamninga. Reglurnar voru hins vegar nokkuð stuttar miðað við þær sem gilda í dag hjá UEFA. Þessi leyfisreglugerð fékk síðan nýja útgáfu árið 2005 sem hét UEFA Club Licensing Manual – Version 2.0. Þremur árum síðar, árið 2008, var sú leyfisreglugerð leyst af hólmi með UEFA Club Licensing Regulations leyfisreglugerðinni. Árið 2010 voru svo þónokkur stakkaskipti á leyfisreglugerðinni þegar UEFA Club Licensing and Financial Fair Play Regulations leyfisreglugerðin var gefin út. Það var svo árið 2022 sem núverandi leyfisreglugerð, UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations, var gefin út (UEFA, 2015).
Reglurnar í megindráttum
Leyfisreglugerð UEFA gildir um öll lið sem taka þátt í félagsliðakeppnum UEFA. Í viðauka G í leyfisreglugerð UEFA er kveðið á um reikningsskilareglur og í viðauka G.3 er fjallað um eignfærslu leikmannasamninga og verður gert grein fyrir helstu efnistökum þess liðar hér á eftir (UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations, 2024).
Í 3. gr. viðauka G.3 í leyfisreglugerð UEFA segir að félög geti eignfært leikmannakaup og þurfa þau þá að fylgja þeim reikningsskilareglum sem kveðið er á um í 4. gr. viðauka G.3 í leyfisreglugerð UEFA. Einnig segir í 3. gr. að félögum sé heimilt að gjaldfæra kostnað við leikmannakaup í stað þess að eignfæra þau, að því gefnu að lög og reglur í landi félagsins heimili það (UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations, 2024).
Í a. lið 4. gr. í viðauka G.3 í leyfisreglugerð UEFA segir að kostnaður sem fellur til við það að kaupa leikmannasamning af öðru liði getur verið eignfærður sem óefnisleg eign. Hér er bara átt við kaupverðið sjálft sem er innt af hendi til annars félags en ekki kostnað eins og þóknun til umboðsmanna, undirskriftarbónus til leikmanns og fleira í þeim dúr. Ef greiðslum á kaupverði er skipt á þá vegu að hluti þess greiðist strax í dag en annar hluti seinna meir, til dæmis ári síðar, þá er allur kostnaður eignfærður samtímis á þeim degi sem leikmannasamningurinn færist á milli félaga (UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations, 2024).
Í b. lið 4. gr. í viðauka G.3 í leyfisreglugerð UEFA segir að afskrift á leikmannasamningi hefst á þeim degi sem félag eignast leikmannasamning og henni lýkur þegar eignin er að öllu leyti afskrifuð eða leikmannasamningurinn er keyptur af öðru félagi (UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations, 2024).
Í c. lið 4. gr. í viðauka G.3 í leyfisreglugerð UEFA segir að leikmannasamningur er afskrifaður með línulegum hætti yfir samningstímann, þó að hámarki yfir fimm ár. Ef leikmaður gerir nýjan samning við félagið þá getur félagið tekið bókfærða verðið sem leikmannasamningurinn stendur í við framlenginguna og afskrifað það yfir nýja samningstímann (UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations, 2024).
Ennfremur segir í d. lið 4. gr. í viðauka G.3 í leyfisreglugerð UEFA að alla eignfærða leikmannasamninga verði að endurskoða árlega vegna mögulegrar rýrnunar í virði. Þetta á helst við í tilvikum þar sem leikmaður hefur orðið fyrir alvarlegum meiðslum og óvíst er hvort hann muni spila aftur fótbolta. Einnig gæti þetta átt við um leikmann sem félagið hefur komist að samkomulagi við annað félag um að selja til en félagsskiptin muni ganga í gegn skömmu eftir fjárhagsárið sem er til endurskoðunar (UEFA Club Licensing and Financial Sustainability Regulations, 2024).
Beiting reikningsskilareglnanna
Lið getur eignast leikmenn á þrjá mismunandi vegu. Í fyrsta lagi með því að kaupa leikmenn. Í öðru lagi með því að fá samningslausa leikmenn til sín á frjálsri sölu. Loks, í þriðja lagi, eru það leikmenn sem eru uppaldir hjá félaginu.
Leikmenn sem eru keyptir eru eignfærðir í samræmi við kaupverðið í ársreikningum félagsliða. Hér getum við notað sem dæmi félagsskipti Orra Steins Óskarssonar til Real Sociedad sumarið 2024. Samkvæmt fjölmiðlum var hann seldur á 20 milljónir evra (Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, 2024). Real Sociedad mun því eignfæra leikmannasamninginn við Orra á 20 milljónir evra í ársreikningnum sínum. Samningurinn er síðan afskrifaður línulega yfir samningstímann en Orri gerði sex ára samning við félagið. Leikmannasamningar mega hins vegar afskrifast að hámarki á fimm árum. Sú regla er nýtilkominn eftir að Chelsea F.C. fór að teygja lopann allverulega í þeim efnum líkt og fjallað var um fyrr í ritgerðinni (Rampling, 2023).
Leikmenn sem koma á frjálsri sölu eru ekki eignfærðir í ársreikningum félagsliða. Hér getum við notað sem dæmi félagsskipti Kylian Mbappé til Real Madrid sumarið 2024.