Tindastóll hefur fengið 250 milljónir króna

Tindastóll hefur fengið 250 milljónir króna

Árið 2021 voru samþykkt lög á Alþingi sem gerðu einstaklingum og lögaðilum kleift að fá skattfrádrátt vegna framlaga til almannaheillafélaga. Markmiðið var að efla og auka skattalega hvata til almannaheillafélaga. Síðasta júlí lagði Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fram fyrirspurn á Alþingi um skattfrádrátt vegna styrkja til félaga á almannaheillaskrá. Þeirri fyrirspurn var svarað og mátti þar finna sundurliðun á framlögum til almannaheillafélaga frá því að lögin voru sett. Á þeim lista er að finna fjölmörg íþróttafélög.

Greinin var einnig birt í Viðskiptablaðinu.

Tindastóll hefur fengið 250 milljónir
Á ríflega þriggja ára tímabili fengu íþróttafélög landsins og sérsambönd samtals um 1,3 milljarða króna í styrki.


Ár frá ári

Fyrsta árið sem lögin voru í gildi námu heildarframlög til almannaheillafélaga tæplega 1 milljarði króna Af þeim fóru 30,8 milljónir króna til íþróttafélaga eða tæp 3,1% af heildarframlögunum. Það var knattspyrnudeild KR sem fékk mestu framlögin, tæpar tíu milljónir króna. Á eftir þeim fylgdi körfuknattleiksdeild Vestra sem fékk 5,3 milljónir króna og það var svo Ungmennafélagið Sindri sem fékk þriðju hæstu framlögin árið 2021, rétt rúmlega 3 milljónir króna.

Árið 2022 námu heildarframlög til almannaheillafélaga 6,6 milljörðum króna. Framlög til íþróttafélaga hækkuðu um ríflega 684% á milli ára en þau námu 241,3 milljónum króna eða tæp 3,6% af heildarframlögum. Það var körfuknattleiksdeild Tindastóls sem fékk hæstu framlögin það árið, rúmlega 51,9 milljónir króna. Fast á hæla þeirra fylgdi Knattspyrnufélagið Valur sem fékk 49,8 milljónir króna í sinn vasa. Efstu þrjú liðin frá árinu áður fylgdu svo í 3.-5. sæti listans árið 2022.

Árið 2023 námu heildarframlög til almannaheillafélaga rúmlega 8 milljörðum króna. Af þeim fóru 441,6 milljónir króna til íþróttafélaga sem er hækkun upp á 83% á milli ára en hlutfall framlaga til íþróttafélaga af heildarframlögum voru 5,5%. Annað árið í röð var það körfuknattleiksdeild Tindastóls sem fékk hæstu framlögin. Þá er einnig áhugavert að sjá að efstu þrjú sætin á listanum þetta árið eru allt körfuknattleiksdeildir.

Árið 2024 námu heildarframlög til almannaheillafélaga 8,5 milljörðum króna. Af þeim fóru 547,8 milljónir króna til íþróttafélaga eða tæp 6,4% af heildarframlögum. Þá nemur munurinn á framlögum til íþróttafélaga árið 2024 og 2021 rúmlega 1.680%. Enn og aftur skipar körfuknattleiksdeild Tindastóls efsta sætið en þeir fengu 140,2 milljónir króna. Á eftir þeim var það svo körfuknattleiksdeild Hattar sem fékk næsthæstu framlögin, rétt tæpar 50 milljónir króna. Svo var það knattspyrnudeild KR sem fékk þriðju hæstu framlögin, 47,8 milljónir króna.

Körfuboltinn fær mest í sinn hlut

Ef framlögin eru skoðuð út frá íþróttagreinum þá hafa körfuknattleiksdeildir fengið mest í sinn hlut, eða tæplega 517 milljónir króna. Rúmlega helmingur þeirrar fjárhæðar fór í körfuknattleiksdeild Tindastóls en þeir hafa fengið hátt í 250,5 milljónir króna. Þar á eftir hafa 314,8 milljónir króna runnið til íþróttafélaga en þar geta félögin auðvitað ráðstafað fjármununum niður á einstakar deildir innan félagsins eins og þeim sýnist. Þá skipa knattspyrnudeildir þriðja sæti listans en þær hafa fengið 308,7 milljónir króna samtals frá því að lögin tóku gildi.

Körfuknattleiksdeildir, íþróttafélög og knattspyrnudeildir skera sig úr frá öðrum íþróttagreinum í framlögum þar sem á eftir þeim koma handboltadeildirnar sem hafa fengið 64,5 milljónir króna sem er töluvert lægri fjárhæð.

Skagfirðingar maka krókinn

Ef framlögin eru skoðuð út frá íþróttafélögum þá hefur Tindastóll fengið hæstu framlögin. Skagfirska íþróttafélagið hefur samtals fengið 251,6 milljónir króna frá því að lögin tóku gildi. Eflaust má rekja bróðurpart þeirrar fjárhæðar til Kaupfélags Skagfirðinga, en það eru þó einungis getgátur þar sem engar upplýsingar eru um hvaðan framlögin koma.

Á eftir þeim kemur svo KR með 136,8 milljónir króna en tæplega tveir þriðjungar þess runnu til knattspyrnudeildarinnar og einn þriðjungur til körfuknattleiksdeildarinnar. Þar á eftir kemur Njarðvík með 109,6 milljónir króna en þar runnu tæplega tveir þriðjungar til körfuknattleiksdeildar og einn þriðjungur til knattspyrnudeildarinnar, öfugt við KR. Þá hefur Íþróttafélagið Höttur fengið 89,3 milljónir króna en öll þau framlög runnu til körfuknattleiksdeildarinnar. Einnig er áhugavert að sjá Ungmennafélagið Sindra frá Höfn í Hornafirði hefur fengið fimmtu hæstu framlögin, samtals 88,5 milljónir króna.

Það kemur nokkuð á óvart að sjá Breiðablik mjög neðarlega á listanum en félagið hefur fengið tæpar 2,2 milljónir króna frá því að lögin tóku gildi. Breiðablik er gífurlega stórt félag en stuðningsmenn þess virðast að minnsta kosti ekki sjá ástæðu til þess að nýta skattfrádráttinn til þess að styrkja félagið. Einnig er vert að nefna að Blaksamband Íslands fékk tæpar 19 milljónir króna á síðasta ári sem samsvarar rúmlega 17,2% af rekstrartekjum þeirra það árið.

Í liði íþróttanna eða ekki

Íþróttahreyfingin hefur fengið 1,3 milljarða króna í gegnum þetta skattfrádráttarkerfi síðan því var komið á laggirnar árið 2021, sem er auðvitað gott og vel. Gætu stjórnvöld hins vegar stutt betur við íþróttahreyfinguna?

Í fjárlögum 2025 voru framlög ríkisins undir liðnum samningar og styrkir til íþróttamála tæplega 1,4 milljarðar króna. Þar að auki var 1,5 milljarða króna fjárheimild til Þjóðarhallar, sem virðist aldrei ætla að rísa.

Íslensk knattspyrnufélög karlamegin eiga nú raunhæfa möguleika á því að komast inn í Sambandsdeild UEFA sem tryggir félögum að lágmarki hálfan milljarð króna. Vissulega hafa einungis tvö íslensk félög komist í þessa keppni sem veitir þeim ákveðna fjárhagslega yfirburði. En ef eitthvað er að marka brauðmolakenninguna þá ætti peningurinn á endanum að dreifast út í fótboltahagkerfið á Íslandi. Stjórnvöld gætu gert ýmsa hluti til þess að ýta undir árangur íslenskra fótboltaliða í félagsliðakeppnum UEFA, sem ætti þar af leiðandi að efla félögin í landinu fjárhagslega.

Í Belgíu borgar íþróttafólk undir 23 ára aldri 16,5% skatt af tekjum upp að 22 þúsund evrum, eftir það eru tekjurnar skattlagðar með hefðbundnum hætti. Sádí-Arabía hefur náð að laða til sín marga öfluga fótboltamenn að undanförnu þar sem þeir borga engan tekjuskatt af launum sínum. Einnig er frægt dæmi af skattakjörum David Beckham þegar hann færði sig um set til Real Madrid. Spænsk stjórnvöld höfðu þá nýlega breytt skattalöggjöfinni sinni á þann veg að erlent vinnuafl gat borgað 24% tekjuskatt í stað þess að vera í efri skattþrepunum. En hugsunin var að laða að sérhæft erlent vinnuafl. Í Danmörku er að finna svipaða skattalöggjöf en þar getur hálaunað erlent vinnuafl verið skattlagt við 27% í sjö ár.

Ef við horfum einungis á þetta út frá fótbolta þá væri hægt að laða að öfluga leikmenn með skattalegum hvötum sem gæti leitt af sér betri árangur í félagsliðakeppnum UEFA. Þá myndi meiri peningur renna í íslenska fótboltahagkerfið sem gæti leitt af sér betri aðstöðu, búnað, umgjörð, betri menntun þjálfara og margt fleira. Það gæti síðan allt orðið til þess að við búum til betri fótboltamenn og íslenskur fótbolti heilt yfir stækkar og verður betri.



Samfélagsmiðlar

facebook.com/utanvallar

linkedin.com/company/utanvallar

instagram.com/utanvallar

tiktok.com/@utanvallar

x.com/utanvallar